Vilja ekki afnema starfsleyfi til fiskeldis

Deila:

Fiskeldisfyrirtæki þurfa ekki lengur starfsleyfi ef frumvarp til laga um fiskeldi verður samþykkt óbreytt. Umhverfisstofnun leggst gegn þessum breytingum. Forstjóri stofnunarinnar vill að gert verði áhættumat fyrir fiskeldi. Frá þessu er greint á ruv.is

Samkvæmt drögum að frumvarpinu þurfa fiskeldisfyrirtæki aðeins að skrá sig hjá Umhverfisstofnun, en ekki sækja um starfsleyfi. Þá verður í höndum Matvælastofnunar að veita fyrirtækjunum rekstrarleyfi vegna starfseminnar. Í dag er öll starfsemi, sem getið er um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, starfsleyfisskyld en ráðherra getur heimilað að tiltekin starfsemi, sem mengar lítið, sé skráningarskyld. Fiskeldi fellur ekki í þann flokk, samkvæmt gildandi lögum. 

Vilja láta áhættumeta fiskeldi

Í umsögn Umhverfisstofnunar um frumvarpið er varað við því að afnema starfsleyfisskyldu, án þess að áhættumeta starfsemina, sem hefur staðið til um nokkurt skeið. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir í samtali við ruv.is að við úthlutun starfsleyfa fari fram ítarlegt mat á umhverfisáhrifum sem færist fyrir ef starfsemin verður aðeins skráningarskyld. „Við teljum nauðsynlegt að ef fiskeldi eigi að verða skráningarskylt þá þurfi að fara með það í áhættumat eins og aðra starfsemi,“ segir Kristín Linda.

Dregur úr aðkomu almennings

Mikilvægt sé að fylgjast grannt með fiskeldi, það sé ört vaxandi grein sem geti haft ófyrirséð áhrif. Þá bendir hún á að með því að afnema starfsleyfisskyldu, hafi almenningur ekki lengur tækifæri til að koma að athugasemdum í formlegu ferli áður en leyfin eru veitt. „Okkur finnst óheppilegt að gera þetta svona á þessum tímapunkti og með þessari aðferðafræði. Okkur finnst að þessi atvinnurekstur eins og annar eigi bara að fara í þann feril sem var búið að setja upp með lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og í gegnum ákveðið áhættumamat,“ segir Kristín Linda.

 

Deila: