Krefjast tafarlausrar lækkunar veiðigjalda
Forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda fóru á fund atvinnuveganefndar í gær. Þar kynntu þeir umsögn LS við frumvarp til laga um veiðigjald.
„LS skorar á atvinnuveganefnd að kvika ekki frá sjónarmiði sínu um leiðréttingu á veiðigjöldum sl. fiskveiðiárs hjá litlum og meðalstórum útgerðum. Í umsögn LS kemur m.a. fram að það sé skoðun félagsins að krókaaflamarksbátar og bátar minni en 30 brúttótonn falli undir þann flokk. LS leggur mikinn þunga á að atvinnuveganefnd verði við tillögu félagsins um leiðréttingu, að í frumvarpið verði bætt við ákvæði þess eðlis,“ segir í frétt á heimasíðu LS.
Ályktun 34. aðalfundar LS um veiðigjald er svohljóðandi:
„Aðalfundur LS krefst tafarlausrar lækkunar veiðigjalda og að þau taki mið af afkomu einstakra útgerðarflokka en ekki meðaltalsafkomu í sjávarútveginum.
Fundurinn brýnir forystu félagsins til að berjast með kjafti og klóm fyrir stórfelldri lækkun veiðigjalda. Þá skorar fundurinn á Alþingi að hækka frítekjumark í 40% af fyrstu 5 m.kr. veiðigjaldsins og 20% af næstu 5 m.kr. þess. Fundurinn skorar jafnframt á Alþingi að leiðrétta nú þegar hlut smábáta í veiðigjaldinu frá og með fiskveiðiárinu 2017/2018.“