Flytur erindi um hrygningu makríls

Deila:

Fimmtudaginn 17. nóvember kl. 12:30 verður málstofa Hafrannsóknastofnunar haldin í fundarsal á 1. hæð að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði. Thassya Christina dos Santos Schmidt, sérfræðingur hjá Hafannsóknastofnun flytur erindið: New findings on Northeast Atlantic mackerel (Scomber scombrus) reproductive strategy and extension of spawning area into Nordic Seas.

Erindið verður flutt á ensku og streymt á YouTube síðu Hafrannsóknastofnunar.

Ágrip

Hrygningartími makríls er langur (frá janúar – júlí). Hrygning hans hefur verið umfjöllunarefni vísinda í meira en áratug og hefur meðal annars verið rökrætt um það hvort hann hrygni öllum eggjum í einu (e. determinate) eða hrygni oftar yfir hrygningartímann (e. indeterminate). Þessi óvissa getur haft áhrif á það hvernig rétt sé að ákvarða frjósemi makríls og mikilvægt að ákvarða þegar reikna þarf út stærð hrygningarstofns úr frá mati á fjölda hrygndra eggja.

Í þessari rannsókn voru notaðar nýjustu aðferðir til að ákvarða æxlunarlíffræði makríls. Niðurstöðurnar benda til þess að þroskun eggja sé stöðugt í gangi og því sé markríll að hrygna oft yfir hrygningartímann.

Í kjölfar á hlýnun sjávar og stórra hrygningarárganga nokkur ár í röð eftir árið 2000, varð stofnstærð makríls eftir árið 2010 meiri en áður hefur sést. Á sama tíma stækkaði hrygningarsvæði makríls bæði í norður og vestur án þess að hægt væri að meta hve langt útbreiðslan náði. Þess vegna var einnig metið hvort hrygning makríls hafi jafnvel náð inn á fæðusvæði hans í Norðurhöfum, norðan 60°N. Gögnin sem voru notuð voru fengin úr mismunandi vísindaleiðöngrum ásamt aflasýnum frá uppsjávarflota yfir fæðutímabil (maí-júlí) milli áranna 2004-2021. Í þessum mánuðum fannst makríll reglulega í suðurhluta Norður-Atlantshafs frá 2009, þar sem hlutfall kynþroska og hrygnandi fiska jókst með tímanum. Augljós breyting varð eftir 2011 þar sem hrygnandi fiskar, þó í litlum mæli, fundust allt norður fyrir 75°N í júlí.

Smásjárgreiningar sýndu að allt að 90% hrygna voru tilbúnar til hrygningar í maí, og um 10% í júní og júlí. Enn fremur, voru um það bil 38% af sýnunum sem tekin voru á seinni mánuðunum að gefa til kynna að hrygningu væri lokið og leifar óþroskaðra eggja greinanlegar (atresia). Niðurstöðurnar benda til þess að makríll hafi endað hrygningu til að nýta orkuna fyrir fæðuleit til að safna upp orku til að geta hrygnt aftur síðar.

 

Deila: