Makrílvertíðin byrjar ágætlega
Skip HB Granda, Venus NS og Víkingur AK, eru bæði byrjuð á makrílveiðum eftir þokkalega kolmunnaveiði í vor og sumarbyrjun. Venus var í gær á Papagrunni en Víkingur á Vopnafirði með rúmlega 600 tonna afla samkvæmt frétt á heimasíðu HB Granda.
,,Þetta er okkar önnur veiðiferð á makrílinn en í þeirri fyrri vorum við mun vestar eða nálægt Vestmannaeyjum. Þá var aflinn, rúm 600 tonn, töluvert síldarblandaður en núna erum við búnir að taka eitt 170 tonna hol hér á Papagrunni og aflinn er hreinn makríll,“ sagði Róbert Axelsson, sem er skipstjóri á Venusi í veiðiferðinni, er rætt var við hann í gær.
Að sögn Róberts var togað í um fjóra tíma. Makríllinn er hinn ágætasti eða um 390 grömm að jafnaði.
,,Það eru greinilega fáir byrjaðir á makrílnum. Huginn VE var með okkur að veiðum við Vestmannaeyjar í síðasta túr og hann er enn fyrir vestan. Aðra höfum við ekki orðið varir við,“ segir Róbert.
Þótt kolmunnaveiðarnar hafi gengið þokkalega er enn töluvert eftir af kvótanum en Róbert hefur ekki áhyggjur af því að kvótinn náist ekki.
,,Við tökum eftirstöðvarnar í haust eða fyrir jól og helsta áhyggjuefnið er hvort sækja verði kolmunnann allan austur í færeyska lögsögu eða hvort hann verði veiðanlegur í þeirri íslensku. Við höfum í ár orðið að ná í kolmunnann austur fyrir Færeyjar utan hvað við fengum þó nokkurn afla í íslenskum sjó fyrir sjómannadaginn. Vonandi verður framhald á þeim veiðum því það mun spara okkur töluverðan siglingartíma,“ segir Róbert Axelsson.