Skiptu Ice Fresh út fyrir kínverska framleiðendur
Stórmarkaðakeðjan Sainsbury í Bretlandi ákvað fyrir allnokkru að hætta kaupum á fiski af dótturfyrirtæki Samherja í Bretlandi, Ice Fresh, og færa þau yfir til kínverskra framleiðenda. Sú ákvörðun tengist á engan hátt starfsemi Samherja í Namibíu. Verslanakeðjan Marks & Spencer kaupir fisk frá Ice Fresh, en ekki afurðir úr veiðum við Namibíu, enda hrossamakríll ekki eftirsótt matvara á Bretlandseyjum. Frá þessu er greint á fréttavefnum undercurrentnews.com
Sainsbury var umsvifamikill kaupandi fiskafurða af Ice Fresh og var þar um að ræða frystan þorsk, ýsu, lax og ufsa, en kaupir nú þessar afurðir af kínversku fyrirtækjunum Qingdao Tanford Foods og Unibond Seafood International
Samkvæmt frétt undercurrentnews.com var Ice Fresh að taka hluta framleiðslu afurðanna fyrir Sainsbury frá Kína og endurpakka þeim í verksmiðju sinni í Grimsby og þannig er verslunarkeðjan að losa sig við millilið í þessum viðskiptum. Rétt er að geta þess að allur þorskur, ýsa og ufsi úr Atlantshafi, sem unninn er í Kína, er innflutt sem frosið hráefni frá löndum eins og Noregi og Rússlandi. Það er svo þýtt upp og unnið, fryst á ný og flutt inn á markaði í Evrópu og Bandaríkjunum.