Slippurinn útskrifaði 15 nemendur í vor

Deila:

Slippurinn á Akureyri útskrifaði í vor 15 nemendur úr valáfanganum Iðnir fyrir alla sem unnin er í samstarfi við grunnskóla Akureyrar. Um er að ræða valáfanga fyrir nemendur í 9. og 10. bekk sem ætlað er að vekja áhuga grunnskólanemenda á iðngreinum og kynna fyrir þeim þau fjölbreyttu störf og starfstækifæri sem iðngreinar hafa upp á að bjóða.

Námið er fjölbreytt og byggir á fræðslu, vettvangsferðum og verklegum æfingum og fer námskeiðið að mestu leyti fram í Slippnum á Akureyri. Starfsfólk Slippsins og umsjónaraðilar frá grunnskólum Akureyrar halda utan um áfangann og fá nemendur að kynna sér helstu starfsemi Slippsins, t.d. vélvirkjun, stálsmíði, ryðfría smíði, tölvuteikningu, rafeindatækni og fleira.

„Slippurinn er gríðarlega stoltur að geta boðið upp á svona áhugaverðan valáfanga fyrir grunnskólanemendur í 9 og 10 bekk hér á Akureyri. Við fórum af stað með þetta verkefni í fyrra og það hefur gengið ótrúlega vel, á þessu ári þá fórum við einnig í heimsóknir í Verkmenntaskólann á Akureyri og Rafeyri sem var mjög skemmtilegt og fræðandi fyrir nemendur. Alls eru þetta 15 skipti á vorönn sem nemendur mæta í og skila af sér video-dagbók eftir hvern tíma. Mikil ásókn er í þennan valáfanga og því miður þá komast færri að en vilja” Segir Kristján Heiðar Kristjánsson, Mannauðsstjóri Slippsins Akureyri ehf.

 

Deila: