Smíði Viðeyjar miðar vel

Deila:

,,Þessu miðar ágætlega hjá okkur og við erum að miða við að skipið verði komið heim fyrir jól. Það er að styttast í prufukeyrslu á vélbúnaði og verður ljósavélum startað í vikunni.“

Þetta sagði Þórarinn Sigurbjörnsson, skipaeftirlitsmaður HB Granda í Céliktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi er haft var samband við hann af heimasíðu HB Granda í gær. Í stöðinni er nú unnið að smíði og frágangi á ísfisktogaranum Viðey RE en hann er síðastur í röð raðsmíði á þremur nýjum ísfisktogurum fyrir HB Granda. Tveir togaranna, Engey RE og Akurey AK, eru komnir heim.

Að sögn Þórarins er nú unnið við innréttingar og rafmagnsvinnu í íbúðum um borð í Viðey og gengur sú vinna ágætlega. Þá er byrjað að innrétta brúna og verið er að ganga frá kælitækjum í lest.

,,Það er svo stefnt á að farið verði í reynslusiglinguna í fyrstu vikunni í nóvember en skipið á að vera komið til Reykjavíkur fyrir jól,“ segir Þórarinn Sigurbjörnsson.

Deila: