Fagnar 26 ára starfsafmæli

Deila:

Sigurjón Viðarsson, skipstjóri á Þórunni Sveinsdóttur VE fagnaði því þann 23. júní að 26 ár eru liðin frá því hann fór fyrst á sjó, þá 12 ára. Þetta kemur fram í frétt á vef Vinnslustöðvarinnar, þar sem rætt er við Sigurjón af þessu tilefni.

Á síðunni kemur fram að Sigurjón hafi áður verið á gömlu Þórunni – sem síðar varð Suðurey – en síðar nýju Þórunni, sem Vinnslustöðin gerir út eftir að hafa keypt Ós útgerð og Leo Seafood fiskvinnslu fyrr á þessu ári.

Sigurjón kom víðar við í flota Eyjamanna, leysti til að mynda af á Bylgju og „gömlu Heimaey“ og var á Smáey og Gullbergi 2009-2010. Í viðtalinu rifjar Sigurjón upp þegar hann fór fyrst á sjó. „Allra fyrst fór ég í hálfan frystitogaratúr með pabba gamla og fékk borgaðar 20 þúsund krónur fyrir að vera tólf ára hálfdrættingur á við hina um borð. Sumarið eftir níunda bekk í grunnskóla byrjaði ég sem háseti og mætti of seint í tíunda bekk um haustið. Ég þurfti að klára frystitogaratúr. Ég var strax mjög spenntur fyrir sjómennskunni. Það þurfti ekki draga mig á sjó og oft var potað í mig og bent á þann möguleika að fara í stýrimannaskóla eins og pabbi og afi gerðu á sínum tíma.”

Ítarlega er rætt við Sigurjón á vefnum.

Deila: