Brim styður fyrirlestra Þorgríms í grunnskólum landsins

Deila:

BRIM styður Þorgrím Þráinsson, rithöfund, til að flytja fyrirlestur sinn „Verum ástfanginn að lífinu“ í öllum grunnskólum landsins.

Þorgrímur fjallar sjálfur um stuðninginn á Facebook síðu sinni en þar segir hann: „Öll erum við mismunandi, til allrar hamingju! Sumir hafa meiri skilning á SAMFÉLAGSLEGRI ÁBYRGÐ en aðrir og þannig verður það alltaf. Ástæða þess að ég hef getað heimsótt alla grunnskóla á landinu á hverju einasta ári – í áratug, og flutt fyrirlesturinn Verum ástfangin af lífinu fyrir nemendur í 10. bekk (stundum yngri nemendur), er sú að forstjórar/yfirmenn ákveðinna fyrirtækja sýna samfélagslega ábyrgð. Og treysta mér. Þeir hafa veitt mér styrk til að geta boðið nemendum upp á fyrirlesturinn — skólum að kostnaðarlausu.“

BRIM er annar tveggja stuðningsaðila Þorgríms en hinn er N1. Þorgrímur segir jafnframt á Facebook síðu sinni: „Það var sérstaklega gaman að ræða við þá Guðmund Kristjánsson, forstjóra Brims, og Eggert Kristófersson, forstjóra N1, um margvíslega samfélagslega ábyrgð og þeir eru algjörlega með puttann á púlsinum. Vissulega hef ég þekkt þá báða áratugum saman og það hefur skapað ákveðið traust. Orðsporið er gulls ígildi.

Fyrsti fyrirlesturinn verður í Árbæjarskóla 22. ágúst og síðan tekur hver skólinn við af öðrum. Ég verð á Austurlandi í september og er gríðarlega spenntur fyrir því að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið síðastliðið vor. Inn á milli held ég fyrirlestur fyrir fyrirtæki en sá fyrirlestur heitir: Hver er þinn tilgangur — ertu þjónn eða þræll?

Það eru forréttindi að vera í ástríðunni alla daga, að hafa haft hugrekki til að treysta lífinu fyrir því að allt … eða flest gangi upp. Sannleikurinn kemur þér langt — en kærleikurinn alla leið!“

BRIM leggur þunga áherslu á samfélagslega ábyrgð í rekstri sínum eins og sést vel í Samfélagsskýrslu félagsins sem birt er árlega.

 

Deila: