Léttari og sterkari fiskeldisker
„Við hjá Trefjum erum með áratugareynslu í plastiðnaði og höfum sérhæft okkur í öllu sem viðkemur framleiðslu á vörum úr trefjaplasti auk þess að framleiða einnig úr öðrum plastefnum. Sennilega er fyrirtækið einna þekktast fyrir báta og heita potta en við höfum einnig þjónustað fiskeldið lengi og framleiðum fiskeldisker af ýmsum stærðum og gerðum. Trefjaplastið hefur fjölmarga eiginleika sem gera það að okkar mati að mun betri kosti en steinsteyptu kerin,“ segir Úlfar Þór Viðarsson, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Trefjum í Hafnarfirði.
Hálfrar aldar reynsla
Fyrirtækið Trefjar var stofnað árið 1978 af Auðuni Óskarssyni og er það enn í eigu og rekstri stofnenda og afkomenda þeirra. Framan af var lögð áhersla á framleiðslu fiskeldiskerja úr trefjaplasti en þá var hin fyrri fiskeldisbylgja í gangi og smíðuðu starfsmenn Trefja þúsundir eldiskerja fyrir fiskeldisfyrirtæki um land allt. Fljótlega hófu Trefjar einnig framleiðslu plastbáta og hafa hundruð báta verið framleiddir fyrir íslenskan og erlendan markað síðan þá. Þá hafa Trefjar um langt árabil framleitt heita potta sem hafa rækilega sannað sig á íslenska markaðnum þrátt fyrir erfiða veðráttu.
Margvíslegir kostir trefjaplasts
Trefjar eru í dag stærsta framleiðslufyrirtæki á Íslandi sem sérhæfir sig í trefjaplastsmíði og rekur stóra verksmiðju í glæsilegu húsnæði í Hafnarfirði þar sem er einnig gott útirými sem gerir fyrirtækinu kleift að taka að sér framleiðslu á stórum einingum í miklu magni. Við spyrjum Úlfar Þór út í kosti trefjaplastsins: „Við teljum engan vafa leika á að trefjaplastið henti mjög vel í fiskeldi þar sem það hefur slétt og gott yfirborð, styrkur þess er gríðarlegur miðað við þyngd og auðvelt að flytja plastkerin á staðinn. Minni kerin koma þangað beint úr verksmiðju en þau stærri í einingum sem fljótlegt er að setja saman á verkstað. Þá er trefjaplastið með lágt kolefnisspor og mun lægra en t.d. steinsteypan. Síðast en ekki síst má nefna að trefjaplastið er afar sveigjanlegt efni og niðurstöður úr jarðskjálftahermum sýna að það er mun líklegra til að þola þær hræringar í náttúrunni sem við höfum ekki farið varhluta af á síðustu misserum,“ segir Úlfar Þór í samtali.
Ætla sér stóran hlut
Úlfar Þór segir ljóst að mikil uppbygging sé fram undan í fiskeldi hér á landi, ekki síst í landeldinu. „Við höfum verið í viðskiptum við nánast öll fiskeldisfyrirtækin hér á landi og ætlum okkur að þjónusta þau eftir bestu getu áfram. Trefjar bjóða ekki aðeins upp á framleislu og uppsetningu sjálfra kerjanna því við erum stöðugt að útvíkka framleiðsluna og smíðum mikið af aukahlutum eins og botnstykki í mörgum útfærslum, dauðfiskkassa, kúluhús fyrir dælur og annan búnað auk þess sem við hönnum og smíðum palla og handrið við kerin.“
Úlfar Þór segir að Trefjar hafi gert samstarfssamninga við tvö öflug fyrirtæki, annars vegar CSUB/Highcomp í Noregi og hins vegar Aqua.is-Eldisvörur hér heima. „Með þessu samstarfi höfum við styrkt okkur mikið og saman getum við boðið upp á heildarlausnir í uppbyggingu á seiðaeldisstöðvum. Hjá okkur starfar öflugt fólk með langa reynslu og mikla þekkingu sem er þess albúið að leysa úr þeim verkefnum sem upp koma. Hjá Trefjum er það einmitt sveigjanleikinn sem er málið!“ segir Úlfar Þór Viðarsson að síðustu.
Greinin birtist fyrst í Sóknarfæri