MD Vélar hasla sér völl á varaaflsmarkaðnum

Deila:

„MD Vélar ehf. er rótgróið fyrirtæki og kannski mest þekkt fyrir sölu og þjónustu vélbúnaðar fyrir skip og báta en með nýjum samstarfssamningi um sölu og þjónustu varaaflsstöða hér á landi frá þýska fyrirtækinu Arctic Auxiliary Systems GmbH erum við að koma sterk inn á markaðaðinn fyrir varaafl,“ segir Kári Jónsson, rekstrarstjóri og einn eigenda MD Véla ehf.

Varaaflsstöðvarnar frá Arctic Auxilary Systems eru sérstaklega lagaðar að kröfum og aðstæðum á norðlægum slóðum, líkt og nafn framleiðandans gefur til kynna. „Eigandi Artic Auxialary Systems GmbH hefur áratuga reynslu og mikil og góð sambönd og með hans þekkingu getum við boðið okkar viðskiptavinum mjög góða tækniaðstoð og ráðgjöf. Og þar sem Arctic Auxilary Systems er frekar lítið í sniðum þá eru samskiptalínurnar stuttar og auðvelt að fá svör og aðstoð þegar þess þarf. Eigandi Artic Auxialary Systems er okkur innan handar frá upphafi hvers verkefnis og fylgir þeim eftir til loka,“ segir Kári.

Alhliða þjónusta

Kári segir að það sem aðgreini MD Vélar ehf. frá mörgum öðrum í þessum bransa sé að fyrir utan að afhenda hágæða varaaflsstövar, bjóði fyrirtækið upp á alhliða þjónustu. „Frá varahlutaþjónustu til faglegrar ráðgjafar, tækni, eftirlits, viðhalds og viðgerðarþjónustu. Við erum með vel útbúið verkstæði en sinnum einnig viðgerðum, uppsetningu og viðhaldi hjá viðskiptavininum,“ segir Kári.

„Ein af uppistöðunum að velgengni MD Véla er án efa starfsfólkið, þar sem er hæft og menntað fagfólk í hverju starfi. Við leggjum metnað okkar í að sinna okkar viðskiptavinum vel og veita ráðgjöf til að geta boðið hverjum viðskiptavini sérsniðnar lausnir sem henta þeirra aðstæðum, við fylgjum hverri sölu eftir og bjóðum upp á langtíma þjónustusamninga til að tryggja rekstaröryggi okkar viðskiptavina. Þannig erum að bjóða allan pakkann og erum traustur bandamaður þar sem samstarfið byggir á gæðum, áreiðanleika og trausti.“

Fjartengingar

Varaaflsstöðvarnar segir Kári að séu þannig útbúnar að hægt er að tengjast þeim með fjarbúnaði og þær geti gengið í allt að mánuð eftir ræsingu án þess að þurfa eftirlit á staðnum. „Þessi búnaður er þannig útfærður að hann grípur sjálfvirkt inn í ef rof verður á rafmagni. Í því felst öryggið fyrir notandann og um leið er komið í veg fyrir bæði óþægindi og í mörgum tilfellum mikið tjón sem annars hlytist af rafmagnsleysi. Í atvinnulífi nútímans sem treystir mjög á rafbúnað í öllum kerfum þá verður varafl sífellt mikilvægara. Það skynjum við vel. Meðal okkar viðskiptavina er First Water ehf. sem þarf ekki eina heldur margar varaaflvélar og við erum nú þegar með í þjónustu varaflsvélar frá 4kW upp í yfir 2.300 kW þannig að sviðið er mjög stórt,“ segir Kári.

Vöxtur í sölu þenslutengja

Annar vaxandi þjónustuþáttur MD Véla er sala þenslutengja sem fyrirtækið býður frá Willbrandt og Metraflex. Willbrandt hannar og framleiðir þenslutengi úr gúmmíi, vef og stáli og er bæði með standard tengi en einnig eru í boði tengi útfærð og framleidd eftir séróskum viðskiptavina. „Við erum með góðan lager af algengustu gúmmítengjunum,“ segir Laila Björk Hjaltadóttir, fjármála og viðskiptastjóri MD Véla.

„Ávinningurinn er margvíslegur; t.d. aukið öryggi í kerfunum gagnvart hreyfingu og spennu og hljóðlátari langakerfi. Þetta þjónustusvið er í stöðugri sókn hjá okkur,“ segir Laila. „Nýjasta viðbótin hjá okkur eru tengi fyrir vatnsúðakerfi eða á aðrar lagnir þar sem getur verið mjög mikil hreyfing. Þessi tengi eru sérhönnuð fyrir jarðskjálftasvæði og henta því einstaklega vel fyrir íslenskan markað. Við erum með Evrópuumboð fyrir þessi tengi og höfum því verið að selja bæði til innlendra og erlendra viðskiptavina.“

Greinin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.

Deila: