Óttast ekki að missa HB Granda á Akranes

Deila:

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur ekki að milljarða uppbygging hafnarmannvirkja á Akranesi þýði að störf flytjist frá HB Granda í Reykjavík upp á Akranes. Forstjóri HB Granda hefur útilokað að fyrirtækið haldi áfram bolfiskvinnslu á báðum stöðunum. „Nei, ég óttast það ekki að HB Grandi fari upp á Akranes. Það er mjög mikilvægt að hafnsækin starfsemi verði áfram í borginni,“ segir Dagur í samtali við Fréttablaðið í dag.

Faxaflóahafnir, Akranes og HB Grandi eiga í viðræðum um uppbyggingu hafnarmannvirkja fyrir á annan milljarð króna sem verður alfarið greitt af Faxaflóahöfnum. Reykvíkingar eiga um 75 prósent í Faxaflóahöfnum. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, hefur sagt útilokað að fyrirtækið verði á báðum stöðum með vinnslu. Það sé vegna ytri þátta og hafnarframkvæmdir skipti þannig engu máli.

„Áform um uppbyggingu hafnarmannvirkja á Akranesi eiga sér langa sögu og þessar hugmyndir eru ekki að verða til núna. Allt frá árinu 2007 hefur verið markmið að byggja upp hafnarmannvirki á Akranesi fyrir hafnsækna starfsemi,“ segir Dagur sem er formaður stjórnar Faxaflóahafna.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og stjórnarmaður í Faxaflóahöfnum, segir af og frá að uppbygging hafnarmannvirkja á Akranesi feli í sér að HB Grandi hverfi frá Reykjavík. Verkefnið sé arðbært hvort sem HB Grandi ætli sér að vera á Akranesi eða ekki. „Ég horfi ekki þannig á verkefnið og samþykkti uppbygginguna ekki á þeim forsendum,“ segir Marta. „Það er markmið Faxaflóahafna að byggja upp alla okkar hafnaraðstöðu. Við gætum séð ný fyrirtæki nýta sér höfnina á Akranesi. Ég legg mikla áherslu á að HB Grandi verði enn með starfsemi í Reykjavík,“ bætir Marta við.

Deila: