FFSÍ og SSÍ gegn auknum heimildum til strandveiða

Deila:

Samtök sjómanna á  stærri skipum leggjast eindregið gegn því að veiðiheimildir smábáta á strandveiðum verði auknar. Þetta kemur fram í umsögnum þeirra um frumvarp Gunnars I. Guðmundssonar, þingmanns Pírata, um breytingar á gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Í því er gert ráð fyrir verulegri aukningu aflaheimilda við strandveiðar.

„FFSÍ mótmælir harðlega framkomnu frumvarpi sem þar sem enn og aftur er gerð tilraun til að auka hlut strandveiðimanna á kostnað atvinnusjómanna sem sækja sjó árið um kring. Þessi aðför nær nýjum hæðum þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir sér aflareglu fyrir smábáta. Enn og aftur er ástæða til að minna á að á fiskimiðunum umhverfis landið er allra veðra von og þar af leiðandi torsóttara að stunda fiskveiðar á smábátum en stærri fiskiskip,“ segir í umsögn FFSÍ.

„Sjómannasamband Íslands leggst alfarið gegn því að tímabil strandveiða verði lengt eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Jafnframt leggst sambandið gegn því að veiðiheimildir strandveiðiflotans verði auknar eins og frumvarpið gerir réð fyrir. Með því að lengja strandveiðitímabilið og auka veiðiheimildir smábátaflotans sem þessar veiðar stunda er verið að taka veiðiheimildir frá sjómönnum á öðrum skipum sem hafa atvinnu af fiskveiðum og færa til annarra. Engin rök eru fyrir slíkum aðgerðum enda hefur ekki verið sýnt fram á að hagkvæmni strandveiðiflotans sé meiri en skipa sem stunda veiðar í aflamarkskerfinu. Sjómannasamband íslands hafnar því alfarið frumvarpinu.“ Svo segir í umsögn umsögn SSÍ.

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur sent út 61 beiðni til sveitarfélaga, samtaka og stofnana um umsagnir við frumvarpið. 12 umsagnir hafa borist og eru félög smábátaeigenda hlynnt frumvarpinu og þau bæjarfélög sem mikið byggja á strandveiðum. Hafró og Fiskistofa gera ákveðnar athugasemdir við frumvarpið. 49 af þeim sem fengu erindið frá atvinnuveganefnd hafa ekki svarað, þeirra á meðal eru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Deila: