Vill endurskoðun veiðigjalda

Deila:

Áform HB Granda um að láta af botnfiskvinnslu á Akranesi hafa dregið fram veikleika í fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þetta segir þingmaður Sjálfstæðisflokks í samtali á visir.is. Mikilvægt sé að endurskoða fyrirkomulag við álagningu veiðigjalda.

HB Grandi tilkynnti í lok mars að það hygðist láta af botnfiskvinnslu á Akranesi og sagði helstu ástæðurnar vera styrkingu krónunnar og að hafnaraðstaðan á Akranesi gerði fyrirtækinu erfitt fyrir.
Á Akranesi starfa nú um 270 starfsmenn innan samstæðu HB Granda, þar af starfa 93 við botnfiskvinnsluna.

Teitur björn Einarsson 2

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi, segir vonir standa til þess að HB Grandi sjái hag sinn í því að halda starfseminni á Akranesi áfram, enda nauðsynleg fyrir sveitarfélagið.
„En þetta hefur dregið fram veikleika sem að við þekkjum og höfum vitað af í mörg ár. Sem er að þrátt fyrir að okkur hafi gengið ágætlega að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og að nýta hana á arðbæran hátt, þá hefur okkur gengið ver að stuðla að því að treysta atvinnu og byggð í landinu,“ segir Teitur.

„Það þyrfti að mínu mati að horfa til þess að þegar að við erum með kerfi sem miðar að þessum þremur markmiðum: Sjálfbærni, arðsemi og að treysta atvinnulífið í landinu, þá er að mínu mati ótækt að ganga svo hart fram við innheimtu veiðigjalda að það geti kippt rekstrargrundvelli undan útgerðarfyrirtækjum og fiskvinnslum hringinn í kringum landið.

Það verður að vera í þessu eðlilegt og sanngjarnt jafnvægi.“

Ertu þá að kalla eftir lægri veiðigjöldum?

„Ég er að kalla eftir því að veiðigjöld verði lögð á með skynsamari hætti en þau eru núna.“

Núverandi fyrirkomulag veiðigjalda bitni sérstaklega illa á minni útgerðarfyrirtækjum.

„Þó svo að stærri fyrirtæki eins og HB Grandi eða Samherji geti vel ráðið við þessar álögur, þá kemur þetta niður á minni fyrirtækjum í byggðarlögum sem byggja meira og minna eingöngu á sjávarútvegi. Þetta kemur verst niður á þeim fyrirtækjum,“ segir Teitur Björn Einarsson.

 

Deila: