Má segja að við höfum týnt makrílnum

Deila:

„Það hefur verið ágæt makrílveiði síðustu dagana en á mánudag datt veiðin alveg niður. Það má segja að við höfum týnt makrílnum og gærdagurinn fór í siglingar og leit. Fregnir berast af því að einhver veiði hafi verið hér töluvert norður af okkur. Það er ekki um annað að ræða en að stefna þangað þótt það sé talsverður fjöldi skipa á svæðinu,” segir Hjalti Einarsson, skipstjóri á uppsjávarveiðiskipinu Svani RE í samtali á heimasíðu Brims í vikunni.

Er rætt var við Hjalta var Svanur djúpt austur af landinu og langt norðan við Færeyjar. Víkingur AK var á svipuðum slóðum og voru bæði skipin á norðurleið. Þriðja uppsjávarveiðiskip Brims var hins vegar á Vopnafirði með um 1.550 tonn af makríl.

,,Við vorum að fá 100 til 300 tonn í holi þegar best lét. Veðrið hefur almennt séð verið gott en nú spáir einhverjum kalda, a.m.k. næsta sólarhringinn. Við erum með um 200 tonna afla í skipinu og mér skilst að Víkingur sé kominn með eitthvað minna. Við þurfum því að auka aflann á næstu dögum.”

Að sögn Hjalta var Svanur síðast í höfn á Vopnafirði í kringum 25. júlí.

,,Við höfum orðið varir við talsvert af síld í köntunum, bæði á heimsiglingunni og útstíminu. Við byrjum hins vegar ekki á síldveiðum fyrr en makrílveiðunum er lokið. Í fyrra veiddum við makríl lengst af septembermánuði en veiðin var reyndar orðin mjög slök síðustu dagana sem við vorum að veiðum,” segir Hjalti Einarsson.

 

Deila: