Nýbyggingin í Eyjum tilbúin í sumar

Deila:

„Það hefur verið mjög góður gangur í framkvæmdunum eftir að dönsku iðnaðarmennirnir komu til Eyja og byrjuðu að reisa stálgrindina í nýbygginguna. Stálgrindin er komin upp og búið er að reisa þakið en það er ótalmargt eftir. Nýbyggingin ætti þó að vera tilbúin til notkunar í sumar,“ segir Ingi Freyr Ágústsson, útibússtjóri Hampiðjunnar í Vestmannaeyjum í samtali á heimasíðu Hampiðjunnar.

Nýbyggingin, sem hér um ræðir, er 40 metra löng og 20 metra breið, og er hún norðan við núverandi húsnæði Hampiðjunnar. Þegar framkvæmdum lýkur verður Hampiðjubyggingin í Vestmannaeyjum samtals 1.200 fermetrar að grunnfleti eða 60 metra löng. Með nýbyggingunni þrefaldast því húsakostur félagsins á hafnarsvæðinu.
,,Danirnir eiga örugglega eftir um mánuð af vinnu. Það á eftir að klæða stálgrindina, ganga frá lögnum og steypa gólfið og eins á eftir að tengja nýbygginguna við núverandi húsnæði,“ segir Ingi Freyr en í máli hans kemur fram að nýbyggingin sé forsenda þess að starfsemi Hampiðjunnar geti vaxið og dafnað í Vestmannaeyjum.

,,Tilkoma þessa nýja húss mun breyta öllu fyrir okkur. Við munum geta tekið nætur og flottroll, og reyndar öll önnur veiðarfæri, inn á gólf til okkar og unnið við þau þar,“ segir Ingi Freyr Ágústsson.

Deila: