Útilokað að eldislaxinn geti sett mark sitt á íslenska stofna

Deila:

Það eru ranghugmyndir ríkjandi hérlendis um erfðafræðilega hættu, sem að íslenzkum laxastofnum steðja af völdum takmarkaðs laxeldis í sjókvíum hér við land undir eftirliti íslenzkra stofnana. Það liggur við, að segja megi, að fullpúrítanskra sjónarmiða gæti varðandi sambýli hins norskættaða eldisstofns á Íslandi og villtu íslenzku stofnanna í íslenzkum laxveiðiám,“ segir í grein eftir Bjarna Jónsson verkfræðing. Þar segir hann ennfremur:

Eldisstofninn er þó orðinn svo háður sínu kvíaumhverfi og fóðrun þar, að hann á mjög erfitt uppdráttar í náttúrulegu umhverfi, ef hann sleppur. Hann er í raun orðinn svo úrkynjaður, að útilokað er, að hann geti sett mark sitt á íslenzka stofna eða valdið tjóni á erfðamengi þeirra.
Sá norskættaði eldisstofn, sem hér er notazt við, er ekki erfðabreyttur, heldur þróaður í margar kynslóðir til skilvirks búskapar í sjókvíum. Almennt eru varúðarmörk erfðablöndunar sett við stöðugt 8 % hlutfall aðskotalax af villtum hrygningarlaxi í á, en á Íslandi eru þessi varúðarmörk þó sett við 4 %. Út frá sleppilíkum og fjölda villtra laxa í nærliggjandi ám er leyfilegt eldismagn á tilteknu svæði ákvarðað, að teknu tilliti til burðarþols viðkomandi fjarðar.

Ákvörðun Hafrannsóknastofnunar olli vonbrigðum
Sumir vísindamenn á þessu sviði halda því fram, að hætta verði fyrst á skaðlegum áhrifum erfðablöndunar við yfir 30 % eldislax af villtum laxi stöðugt í á í meira en áratug samfellt. Miðað við, hversu langt innan hættumarka íslenzka laxeldið verður alltaf, jafnvel þótt núverandi burðarþolsmörkum Hafrannsóknarstofnunar verði náð, þá stappar það nærri móðursýki, hvernig sumir gagnrýna og vara við eldi á þessum norskættaða stofni í sjókvíum við Ísland. Rekstrarleyfin þarf að ákvarða í ljósi áhættu, þ.e. líkindum og afleiðingum, og ávinnings. Nýleg ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar um frestun endurskoðunar á áhættumati fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi og óljós hugmynd um tilraunaeldi þar ollu vonbrigðum í þessu ljósi.

Áhættugreining á erfðablöndun verður gerð reglulega
Tæknilegar kröfur til fiskeldisins vaxa stöðugt og eftirlitið verður jafnframt strangara samkvæmt lögum í bígerð. Í umræðum á Alþingi 10. apríl 2018 um frumvarp sitt, sem þá var til umræðu, sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Það er alveg rétt, að hér er verið að gera grundvallar breytingu, ef svo mætti að orði komast, á starfsemi fiskeldisfyrirtækja og því, sem snýr að eldi í íslenzkum sjó.“
Með frumvarpi ráðherra eru meginbreytingarnar þær, að áhættugreining á erfðablöndun verður gerð reglulega og ráðlegt eldismagn endurskoðað í kjölfarið, eldissvæði verður skilgreint og því úthlutað samkvæmt hagstæðasta tilboði frá eldisfyrirtæki, auk þess sem gæðastjórnunarkerfi með innra eftirlitskerfi verður skylda í hverju starfræktu fiskeldisfyrirtæki á og við Ísland. Norski gæðastjórnunarstaðallinn NS 9415, sem er sá strangasti á sínu sviði í heiminum, verður hafður til viðmiðunar. Í húfi fyrir eldisfyrirtækin, ef þau standa sig ekki, er starfsleyfið. Þetta fyrirkomulag girðir fyrir fúsk og knýr eldisfyrirtækin til stöðugra umbóta.
Með frumvarpinu er Hafrannsóknarstofnun falið að áhættumeta starfsemina á hverju svæði með mest 3 ára millibili. Í júlí 2017 gaf Hafrannsóknarstofnun í fyrsta skipti út áhættumat vegna erfðablöndunar laxa. Þá réð stofnunin frá veitingu starfs- og rekstrarleyfa í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði vegna nálægðar við laxveiðiár. Í heildina taldi stofnunin þá óhætt að ala 50 kt/ár af frjóum laxi á Vestfjörðum og 21 kt/ár á Austfjörðum og til viðbótar alls 61 kt/ár af ófrjóum laxi, alls 132 kt/ár.

„Áfall fyrir byggðir landsins“
Í Morgunblaðinu 6. júlí 2018 var fjallað um nýtt áhættumat Hafrannsóknarstofnunar frá júlí 2018 undir fyrirsögn á bls. 2:
„Áfall fyrir byggðir landsins“:
„“Þetta kemur okkur auðvitað í opna skjöldu. Við höfum unnið í góðri trú með Hafrannsóknarstofnun í hér um bil eitt ár, þar sem settar voru fram hugmyndir, sem gætu leitt til aukinna framleiðsluheimilda“, segir Einar [K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva], en hann telur, að allar efnislegar forsendur hafi verið fyrir hendi til endurskoðunar.
„Þetta er mikið áfall fyrir atvinnugreinina og fyrirtækin, en ekki síður fyrir þær byggðir, sem höfðu bundið vonir við endurskoðun áhættumatsins vegna þess, að fiskeldismenn höfðu lagt til nýjar eldisaðferðir til að draga úr hættu á erfðablöndun“, segir hann.

„Hundalógikk“
Í tilkynningu á vef Hafrannsóknarstofnunar segir um ákvörðunina, að í lögum sé ekki heimild til að draga úr eldi, sem leyft hafi verið á grunni áhættumats, reynist leyfilegt eldi vera of mikið. Því sé ekki ráðlegt að breyta áhættumatinu.““
Þetta er hundalógikk hjá stofnuninni, og hún virðist hér komin út í orðhengilshátt gagnvart fiskeldisfyrirtækjunum. Rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á einum stað má einfaldlega aldrei fara yfir burðarþolið eða niðurstöðu áhættumats á tilteknu svæði, eftir því hvor talan er lægri. Hafi fiskeldisfyrirtækið þegar greitt fyrir starfs- og rekstrarleyfi samkvæmt fyrri úthlutun, fær það einfaldlega endurgreiddan mismuninn á grundvelli nýrra vísindalegra niðurstaðna, um leið og það dregur úr framleiðslu samkvæmt áhættumati. Það er einhvers konar skálkaskjól fyrir Hafrannsóknarstofnun að neita að hækka áhættumatið á grundvelli beztu þekkingar, af því að Alþingi hafi ekki beinlínis fyrirskipað, að fyrirtækin skuli jafnan breyta eldismagni í kjölfar nýrra niðurstaðna áhættumats.
Hér er Hafrannsóknarstofnun komin út fyrir vísindalegan ramma sinn. Stjórn stofnunarinnar ber að rýna þessa ákvörðun gaumgæfilega og óska eftir útgáfu nýs áhættumats í stað óljósra fyrirætlana stofnunarinnar um tilraunaeldi í Ísafjarðardjúpi. Hagur fólksins, sem býr í viðkomandi byggðum, skal njóta vafans, auk þess sem um þjóðhagslega mikilvægan vaxtarbrodd í atvinnulífinu er að ræða. Þetta á ekki sízt við, þar sem líkurnar eru 0 á óafturkræfum breytingum á einstæðu íslenzku lífríki (það eru engir sértækir íslenzkir laxastofnar í viðkomandi þremur ám í Ísafjarðardjúpi, þeir eru aðfluttir).

Spurt og svarað um landeldi
Jónatan Þórðarson, fiskeldisfræðingur, ritaði merka grein í Fréttablaðið 22. marz 2018, sem hann nefndi:
„Frey Frostasyni svarað vegna vistspors sjókvíaeldis“:
„Svo virðist sem þeir, sem andmæla sjókvíaeldi, séu almennt fylgjandi eldi á landi. Því er ekki úr vegi að bera saman þessa tvo valkosti, en undirritaður rak stærstu landeldisstöð heims í 16 ár og er því afar vel kunnugur málavöxtum, en hefur varið undanförnum 8 árum í að endurreisa sjókvíaeldi við strendur Íslands.
Þegar horft er til vistspors laxaframleiðslu eða próteinframleiðslu almennt, er gjarnan litið til 4 þátta:
1. Hve mikillar orku krefst framleiðslan ?
2. Hvað verður um úrgang, sem fellur til ?
3. Hver eru áhrif hugsanlegrar genablöndunar vegna stroks kynbætts eldisfisks ?
4. Hvað kostar fjárfestingin við framleiðslu á hvert kg í vistspori, og hve mikið er hægt að endurvinna af búnaðinum ?
Fyrirliggjandi staðreyndir eru eftirfarandi:

  1. Það kostar 7 kWh af raforku að framleiða 1 kg af laxi í landeldi, þ.e.a.s. að færa laxinum súrefni og fjarlægja úrgangsefni. Í sjókvíaeldi kostar þetta enga orku. Ísland á hreina orku, sem hægt er að nota til þessarar framleiðslu, en hún er takmörkuð auðlind og ekki mikið rafmagn til í kerfinu fyrir stórskala framleiðslu. Frekari virkjanaframkvæmdir eru umdeildar. [Fyrir t.d. 50 kt/ár þyrfti 350 GWh/ár af raforku, sem er tæplega 2 % af núverandi raforkunotkun landsins. Raforkukostnaðurinn við landeldið er hár og nemur um 15 % af söluandvirði framleiðslunnar, sem dregur að sama skapi úr framlegð starfseminnar-innsk. BJo.]
    2.Úrgangsefni, sem verða til við framleiðsluna í landeldi, er hægt að fanga að miklu leyti og nýta sem áburð, en eigi að síður endar seyran inni í stóra nítur- og fosfathringnum á endanum. Úrgangur frá sjókvíaeldi fellur að einhverju leyti til botns, en leysist allur upp að lokum og endar með sama hætti inni í stóra nítur- og fosfathringnum. Þannig er þessi þáttur m.t.t. vistspors afar umdeilanlegur [og sennilega sambærilegur að stærð-innsk. BJo].
    3. Strok verður æ minna með árunum og búnaðurinn betri og betri með hverju ári, sem líður, með sama hætti og öll önnur tæki þróast með tímanum. Enginn framleiðandi vill, að lax sleppi, þannig að hvatinn er augljós. Klárlega má fullyrða, að strok er minna úr strandstöðvum, ef vandað er til verks. Um neikvæð eða jákvæð áhrif genablöndunar er erfitt að fullyrða, og líffræðingar eru afar ósammála um þennan þátt umræðunnar. Það vegur hins vegar þungt að benda á rauntölur um afkomu norska laxastofnsins sem afleiðu af auknu eldi. Hér er um sögulegar rauntölur að ræða, en ekki framreiknaðar tölur, byggðar á veikum faglegum grunni og lélegum rannsóknum. Þar er ekki hægt að merkja, að aukið eldi hafi neikvæð áhrif á afkomu laxastofnsins í Noregi, þar sem villilaxastofninn þar hefur vaxið hin síðari 15 ár og laxeldi á sama tíma vaxið tífalt. [Hræðslusögur hérlendis af slæmu ástandi villtu norsku laxastofnanna, sem gríðarlegu laxeldi meðfram strönd Noregs hefur verið kennt um, eru algerlega á skjön við þessar staðreyndir Jónatans Þórðarsonar. Stóryrtar og innihaldslausar fullyrðingar ásamt hrakspám um afleiðingar aukins sjókvíaeldis á laxi hérlendis styðjast ekki við annað en neikvæðar getgátur og þaðan af verra-innsk. BJo.]
    4. Erfitt er að fullyrða, að allar byggingar, sem byggðar eru í landeldi, séu endurnýjanlegar. Afskriftartími sjókvía er 10-15 ár. Net, kaðlar og kvíar eru að fullu endurnýttar. Hér hefur sjókvíaeldi klárlega vinninginn.
    Af þessu má ráða, að með nútímatækni við laxeldið sé sjókvíaeldi hreinlega vistvænna en landeldi. Kostnaður við sjókvíaeldi er mun lægri en við landeldi á hvert framleitt tonn. Landeldi laxins er þannig ekki samkeppnishæft við sjókvíaeldið. Það verður þó ljóslega valkostur í framtíðinni, t.d. þar sem jarðhita er að hafa, þegar þolmörkum í leyfðum eldisfjörðum verður náð.

Geldlax á rannsókna og tilraunastigi

Gelding eldislax er á rannsóknar- og tilraunastigi. Geltur lax hefur hingað til þrifizt illa og orðið mikil afföll við eldið. Óvíst er, hvernig markaðurinn tekur slíkri matvöru. Það er tómt mál að tala um slíkt sjókvíaeldi við Ísland í umtalsverðum mæli á næstu 5 árum.

Áberandi tortryggni gætir víða hérlendis í garð sjókvíaeldis á laxi, mest þó á meðal veiðiréttarhafa og laxveiðimanna. Fortíð fiskeldis á nokkra sök á þessu. Með miklum norskum fjárfestingum í greininni hérlendis hefur hins vegar eldisþekkingu vaxið fiskur um hrygg og búnaður, tækni og gæðastjórnun, tekið stakkaskiptum til hins betra. Þá hefur lagaumhverfi greinarinnar skánað. Strokhlutfall úr eldiskvíum og upp í íslenzkar laxveiðiár er einfaldlega orðið svo lágt, að óþarfi er að hafa áhyggjur af skaðlegum áhrifum erfðablöndunar, enda mun Hafrannsóknarstofnun endurskoða áhættumat sitt á mest þriggja ára fresti til lækkunar eða hækkunar á grundvelli fenginnar rekstrarreynslu á hverjum stað.

Laxeldið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki

Laxeldið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í atvinnulífi og byggðaþróun á Vestfjörðum og Austfjörðum. Starfsemin er þegar farin að gegna þjóðhagslegu hlutverki, og hún hefur burði til að verða einn af vaxtarbroddum gjaldeyrisöflunar á næstu árum. Til að viðhalda hagvexti og jákvæðum viðskiptajöfnuði þurfa útflutningstekjur landsins að aukast um 50 miaISK/ár í næstu framtíð. Útflutningstekjur laxeldis eru nú um 15 miaISK/ár og geta hæglega aukizt upp í 100 miaISK/ár að landeldi meðtöldu á einum áratugi. Til þess verða stjórnvöld þó að sníða greininni sanngjarnan stakk og leyfa henni að vaxa, eins og hún kýs, innan ramma núverandi svæðistakmarkana og „lifandi“ burðarþolsmats og áhættumats innan þessara leyfðu svæða.

Bjarni Jónsson, rafmagnsverkefræðingur. Greinin birtist á bloggsíðu hans 18. júlí sl. Sjá: https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2219693/

 

 

Deila: