Beðið eftir nýju hafrannsóknaskipi

Deila:

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hitti á Sjávarútvegssýningunni 2022 Javier Lopez de Lacalle, framkvæmdastjóra Foro Maritimo Vasco, sem er Sjávarsetur Baskalands, óhagnaðardrifin samtök fyrirtækja, félaga, banka, rannsóknarmiðstöðva og háskóla. 

Hafrannsóknarstofnun bíður nú eftir nýju hafrannsóknarskipi, en fyrr á þessu ári var samið um smíðina við spænsku skipasmíðastöðina Astilleros Armón, sem er eitt af aðildarfyrirtækjum Sjávarseturs Baska. 

Hrepptu samninginn fyrir 4,8 milljarða 

Skipið verður 70 metrar á lengd og tólf metrar á breidd. Forhönnun var í höndum Skipasýnar, en unnið hefur verið að hönnun og síðan útboðsferli í um þrjú ár. Skipið verður smíðað í Astilleros Armón-skipasmíðastöðinni í Vigo á Spáni. Fyrirtækið bauð 33,45 milljónir evra í smíðina, jafnvirði 4,8 milljarða íslenskra króna. Astilleros Armón var ein þriggja spænskra skipasmíðastöðva sem buðu í smíðina. 

Undirbúningsferlið hófst árið 2018 þegar Alþingi veitti sjávarútvegsráðuneytinu heimild til þess að hefja undirbúning á kaupum nýs skips fyrir Hafrannsóknarstofnun, til að leysa af hólmi rannsóknarskipið Bjarna Sæmundsson sem hefur staðið sína plikt með miklum sóma í sex áratugi. Svandís Svavarsdótir, matvælaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og Laudelino Alperi Baragano frá Astilleros Armón, undirrituðu samning um smíði skipsins í marsmánuði sl. Stöðin á að afhenda skipið haustið 2024.

Deila: