Samið verði um að draga úr ríkisstyrkjum til ósjálfbærra fiskveiða

Deila:

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ítrekaði mikilvægi alþjóðaviðskiptakerfisins í ræðu Íslands á 11. ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Buenos Aires í Argentínu. Guðlaugur Þór sagði WTO gegna mikilvægu hlutverki við að efla viðskipti milli ríkja, stuðla að þróun og efnahagslegri uppbyggingu og við úrlausn deilumála um viðskiptatengd málefni.

„Ég lagði áherslu á að skilaboð ráðherrafundarins væru skýr um að lokið verði við gerð samnings um að draga úr ríkisstyrkjum til ósjálfbærra og skaðlegra fiskveiða strax á næsta ári svo samningurinn geti tekið gildi fyrir árið 2020, eins og kveðið er á um í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Guðlaugur Þór í frétt frá Utanríkisráðuneytinu.

Þá fagnaði utanríkisráðherra því að mikill meirihluti aðildarríkja WTO sé fylgjandi því að setja jafnréttismál á dagskrá í umræðu um alþjóðaviðskiptamál. Yfirlýsing um viðskipti og valdeflingu kvenna, verður kynnt í dag en Ísland hefur verið í fararbroddi við gerð þessarar yfirlýsingar.

Ísland leggur einnig áherslu á að WTO vinni að málefnum örsmárra, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem og að rafrænum viðskiptum og hefjist handa við að draga úr ríkisstyrkjum tengdum jarðefnaeldsneyti.

Á fundinum mun Guðlaugur Þór jafnframt undirrita, ásamt ráðherrum hinna EFTA ríkjanna, samstarfsyfirlýsingu EFTA og Nígeríu um fríverslunarmál. Guðlaugur Þór segir mikil tækifæri felast í því að dýpka samstarf EFTA og Nígeríu um fríverslun. Nígería sé eitt helsta viðskiptaland Íslands og aðalmarkaðurinn fyrir þurrkaðar fiskafurðir. Mikið hafi dregið úr útflutningi til Nígeríu síðustu ár í kjölfar efnahagslægðar og verndarráðstafana nígerískra stjórnvalda en með samstarfsyfirlýsingunni skapist möguleikar á að efla viðskipti við Nígeríu að nýju.

Þá mun Guðlaugur Þór eiga tvíhliða fundi á meðan ráðherrafundi WTO stendur. Hann fundar með Liam Fox, utanríkisviðskiptaráðherra Bretlands, Jorge Faurie, utanríkisráðherra Argentínu og Pablo Campana Sáenz, utanríkisviðskiptaráðherra Ekvador, en nú er verið að ljúka gerð fríverslunarsamnings EFTA og Ekvador. Einnig átti Guðlaugur Þór fund með G-10 landahópnum, þ.e. ráðherrum aðildarríkja WTO sem hafa sambærilegra hagsmuna að gæta í landbúnaði.
Ráðherrafundur WTO stendur 10.-13. desember.

Deila: