Icelandic Group setur Seachill í söluferli

Deila:

Stjórn Icelandic Group hefur hafið söluferli á dótturfyrirtæki sínu Seachill í Brelandi. Seachill er leiðandi fyrirtæki í sölu kældra fiskafurða á Bretlandseyjum og selur jafnfram vörur sínar vestur um haf, til meginlands Evrópu og Ástralíu. Staða fyrirtækisins er mjög sterk á þessum markaði og veitir viðskiptavinum sínum heildarlausnir í innkaupum.

Seachill var stofnað 1998 og hefur starfsemin vaxið hratt og það nú eitt að stærstu fyrirtækjum á Bretlandseyjum í framleiðslu og sölu á kældum afurðum. Fyrirtækið er vel búið tækjum og er sölukeðjan sterk. Sjálfbærni er einn af höfuðþáttum í starfseminni og vinnur það aðeins með byrgjum sem bjóða umhverfisvottaðar sjávarafurðir samkvæmt stöðlum MSC eða sambærilegar vörur.

Fyrirtækið The Saucy Fish Co. er dótturfyrirtæki Seachill. Það hefur hlotið viðurkenninguna svalasta vörumerkið á Bretlandi fjórum sinnum og hefur það náð afar góðum árangri á breska markaðnum fyrir ferskar fiskafurðir í neytendaumbúðum og hefur getið sér gott orð á alþjóða vettvangi. Á þessu ári hóf The Saucy Fish Co. einnig sölu á frystum afurðum í neytendapakkningum.

Tekjur Seachill á síðasta ári voru 266,3 milljónir punda, um 37,7 milljarðar króna og var EBITDA 1,5 milljarðar.

Það eru Íslandsbanki og breska fyrirtækið Oghma Partners sem sjá um söluna.

Þetta er fjórða stóra fyrirtækið sem Icelandic Group selur á síðustu misserum. Hin eru Cadus í Belgíu, Ný-Fiskur í Sandgerði og Icelandic Iberia á Spáni. Íslensk félög hafa keypt öll þau fyrirtæki.

Deila: