Togararnir koma til sögunnar

Deila:

Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um upphaf skuttogaraútgerðar fyrirtækisins og um leið upphaf skuttogaraútgerðar landsmanna.

Þegar Síldarvinnslan hóf útgerð árið 1965 stóð síldarævintýrið hvað hæst. Allt snerist um síldina. Í fullu samræmi við þetta voru fjórir fyrstu bátarnir í eigu Síldarvinnslunnar sérstaklega smíðaðir með síldveiðar í huga. En sagan segir okkur að erfitt sé að treysta á silfur hafsins til langframa – síldin kemur og síldin fer. Og síldarævintýrið tók enda og þá þurfti Síldarvinnslan rétt eins og mörg önnur sjávarútvegsfyrirtæki að bregðast við því. Síldarbátarnir hentuðu ekki vel til bolfiskveiða og flestum varð ljóst að breytingar á skipastól fyrirtækisins voru nauðsynlegar.

Á árunum 1970-1972 voru allir fjórir síldarbátar Síldarvinnslunnar seldir og í stað þeirra festi fyrirtækið kaup á skipum annarrar gerðar sem talin voru henta betur nýjum aðstæðum á sviði útgerðar. Skuttogari var keyptur árið 1970, stórt uppsjávarveiðiskip var keypt 1973 og sama ár fékk fyrirtækið nýjan skuttogara, Bjart NK, sem smíðaður var í Japan. Því var um algera endurnýjun á flota fyrirtækisins að ræða á árunum 1970-1973.

Barði NK, sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1970, var þriggja ára gamalt skip sem gert hafði verið út í Frakkalandi. Barði var í reyndinni fyrsti eiginlegi skuttogari landsmanna – hann hafði skutrennu, allan hefðbundinn skuttogarabúnað og ekki ætlaður til annarra veiða en togveiða. Barði var því tímamótaskip, en systurskip hans voru keypt til Eskifjarðar og Sauðárkróks um líkt leyti. Stóra uppsjávarveiðiskipið sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1973, Börkur NK, var einnig tímamótaskip og átti svo sannarlega eftir að reynast fyrirtækinu vel, en það er önnur saga.

Barði var 300 lesta togari og kom hann í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 14. desember 1970. Hann hélt síðan til veiða eftir gagngerar endurbætur 11. febrúar 1971 og þar með var skuttogaraútgerð Íslendinga hafin.

Ekki voru allir sannfærðir um að skynsamlegt væri fyrir Síldarvinnsluna að hefja togaraútgerð og rifjuðu menn upp útgerð nýsköpunartogara Norðfirðinga og togarans Gerpis en sú útgerð hafði ekki endað með neinum glæsibrag. Aðrir töldu hins vegar að skuttogaraútgerð ætti framtíð fyrir sér og fyrir gamlan síldarbæ eins og Neskaupstað væri brýnt að auka áherslu á bolfiskveiðar og þá með skipum sem hentuðu til slíkra veiða. Magni Kristjánsson, fyrsti skipstjórinn á Barða, hafði til dæmis tröllatrú á útgerð skuttogara og það hafði líka Birgir Sigurðsson, sem var fyrsti stýrimaður á togaranum í upphafi. Báðir höfðu þeir mikla reynslu af síðutogurum og töldu skuttogara hafa margt fram yfir þá þannig að hæpið væri að bera saman útgerð gömlu síðutogaranna og skuttogara.

Erfiðlega gekk að ráða áhöfn á Barða í upphafi enda margir fullir efasemda. Það fiskaðist strax vel á skipið og eftir fjóra mánuði var aflaverðmætið talið nema 15 milljónum króna sem var rúmlega fjórðungur af kostnaðarverði skipsins. Á fyrsta árinu bar Barði að landi liðlega 3.000 tonn og hásetahluturinn reyndist vera 790 þúsund krónur sem þótti skrambi gott. Fljótlega kom að því að pláss á Barða urðu eftirsótt og var unnt að velja úr umsækjendum. Það var svo sannarlega eitthvað annað en hafði verið á tímum norðfirsku síðutogaranna, en þeir höfðu löngum verið mannaðir Færeyingum að drjúgum hluta og jafnvel mönnum sem höfðu verið sjanghæaðir um borð í höfuðborginni.

Stjórn Síldarvinnslunnar tók ákvörðun um að láta smíða skuttogarann Bjart í Japan seint á árinu 1971 en þá hafði nokkur reynsla fengist af útgerð Barða. Í upphafi var Bjarti ætlað að leysa Barða af hólmi, en eftir að smíði togarans hófst var ákveðið að gera þá báða út. Reyndar urðu skuttogarar Síldarvinnslunnar þrír talsins árið 1977 þegar Birtingur NK bættist í flotann.

Barði NK, fyrsti skuttogari Síldarvinnslunnar, var í eigu fyrirtækisins til ársins 1979 en þá var hann seldur úr landi. Það var í októbermánuði 1979 sem Barði sigldi út Norðfjörð í síðasta sinn og það var engu líkara en skipið vildi ekki fara. Fjöldi fólks var saman kominn til að kveðja skipið og rétt í þann mund sem það var leyst kom upp bilun í stýrisbúnaði þess og tafðist brottförin því nokkuð. Árið 1980 hófst útgerð annars togara í stað Barða og bar hann sama nafn. Þessi nýi Barði var systurskip Birtings.

Hér verður skuttogarasaga Síldarvinnslunnar ekki rakin frekar, en vert er að minnast þess að árið 2014 var gefið út frímerki með mynd af Barða NK, fyrsta hefðbundna skuttogaranum sem gerður var út frá Íslandi.

Á myndinni er Barði NK að toga innan um gamla síðutogara fljótlega eftir að hann hóf veiðar. Þarna mætast gamli og nýi tíminn. Ljósm. Ásgrímur Ágústsson

Deila: