Fullfermi eftir fjóra daga

Deila:

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar á sunnudag að aflokinni fjögurra daga veiðiferð. Skipið var með fullfermi eða 107 tonn og var þorskur og ufsi uppistaða aflans. Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Rúnars L. Gunnarssonar skipstjóra og spurði hvort aflinn hefði fengist á hefðbundnum miðum skipsins.

„Jú, hann fékkst á okkar hefðbundnu miðum – í Berufjarðarálnum og Hvalbakshalli. Við höfum haldið okkur á þessum miðum í ríkum mæli það sem af er árinu en fórum þó tvo túra á Selvogsbankann seinni partinn í apríl. Almennt hefur afli verið jafn og góður það sem af er ári og það er víst að við getum ekki kvartað,“ segir Rúnar.

Háhyrningur kom í trollið hjá þeim á Gullver í þessum túr. Honum var skilað aftur í hafið.
Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

Deila: