Eftirminnilegast að bjarga mönnum úr sjó í Smugunni

Deila:

Eftirminnilegast að bjarga mönnum úr sjó í Smugunni

Maður vikunnar á kvótanum í dag er Sigfús Snæfells Magnússon. Hann er núna verkstjóri í saltfiskverkun Þórsness í Stykkishólmi en hefur einnig verið mikið á sjó, lengst á Haraldi Kristjánssyni og Helgu Maríu, sem reyndar er sama skipið.

Nafn?

Sigfús Snæfells Magnússon.

Hvaðan ertu?

Úr Hafnarfirði upphaflega. Flutti fyrir tæpum 6 árum Í Hólminn, en konan mín er héðan.

Fjölskylduhagir?

Kvæntur Ragnheiði Hörpu Sveinsdóttur kennara við Grunnskólann í Stykkishólmi. Eigum saman tvö börn, Íris Önnu 9 ára og Magnús Inga 7 ára. Á fyrir tvær stelpur Kristínu Birnu, 17 ára sem býr hjá okkur og er nemandi í fjölbrautarskólanum í Grundarfirði og Þórdísi Hrönn, knattspyrnukonu sem spilar með Stjörnunni og er í Háskóla. Loks er einn stjúpsonur. Kristján Gilbert, sem er 28 ára og býr í Hafnarfirði.

Hvar starfar þú núna?

Verkstjóri hjá Þórsnesi í Stykkishólmi. Byrjaði þar í janúar síðastliðnum.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði í frystihúsinu á Hólmavík 16 ára 1987. Svo fór ég á net og línu hjá fyrirtæki sem hét Bassi efh.  Byrjaði á Ásbjörginni, trébát sem var smíðaður í Hólminum og ég held að hann sé í hvalaskoðun núna. Þaðan lá leiðin á Drangavík, sem var lítill rækjutogari frá Hólmavík, sem Hólmadrangur gerði út. Þá flutti ég á Selfoss í smíðar, og kom svo til baka og fór á Hólmadrang 1991 til 1994. Þá fór ég á Bylgjuna í Vestmannaeyjum og á Sjóla HF síðar Málmey Sk og síðan á Harald Kristjánsson. Var á því skipi til 2004 og hætti þá á sjónum í smá tíma. Starfaði fyrst sem leigubílstjóri og síðan lager- og sölumaður hjá Betra baki. Stofnaði síðan hellulagningarfyrirtæki með Guðmundi Vigni Þórðarsyni, æskuvini frá Hólmavík. Það var í Kópavogi og hann starfar enn við það. Í hruninu fór ég á sjóinn, fyrst á Baldvin Njálsson og síðan Helgu Maríu 2010 til 2014.  Þá fékk ég vinnu hjá Fiskistofu á starfsstöðinni í Stykkishólmi og var þar í tæp tvö ár en þá bauðst mér þessi vinna sem verkstjóri í Þórsnesi.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það var spennandi að fara á sjóinn. Pabbi gamli var sjómaður og maður vildi svolítið prufa það sem hann hafði verið að gera. Hann hafði verið á gömlu síðutogurunum og var kallaður „Vatnaguðinn“. Þetta var ævintýri og síðan þokkalegar tekjur og svo er fiskurinn bara undirstaða þjóðarinnar. Í verkstjórninni er gaman að framleiða og sjá hvernig þetta verður allt til.

En það erfiðasta?

Útiveran og fjarvera frá fjölskyldu á sjónum. Gat líka verið erfitt í brælum. Verkstjórn í landi er fínasta vinna og gengur ágætlega.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Man ekki eftir neinu sérstaklega skrítnu núna. Eftirminnilegast er þegar við vorum í Smugunni á Haraldi Kristjánssyni og það komu strákar af Siglfirðingi í heimsókn til okkar að spjalla því lítið var að gera. Þeir fara svo burt og við fórum að vinna. Þá kallar skipstjórinn í okkur og segir að þeir hafi farið í sjóinn. Við settum út bát og náðum að bjarga þeim, en einn þeirra var orðinn ansi kaldur. Það var góð tilfinning að geta komið þeim til hjálpar.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Hann hét Elías Hjörleifsson, kokkur á Haraldi Kristjáns og Helgu Maríu. Faðir Ólafs Elíassonar, myndlistarmanns. Það var allt skemmtilegt í kringum hann, en því miður dó hann um aldur fram. Eiríkur Ragnarsson, skipstjóri minn lengst af, er eftirminnilegur og góður skipstjóri .
Hver eru áhugamál þín?

Ég er alæta á íþróttir, en fótbolti og körfuknattleikur efst á listanum. Stangveiði finnst mér líka mjög skemmtileg.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Íslenska lambaketið.

Hvert færir þú í draumfríið?

Væri til til að fara í siglingu um Miðjarðarhafið. Það er annars aðallega að vera með fjölskyldunni.

 

 

 

 

 

Deila: