Hvalirnir koma og fara

Deila:

Grindhvalavaðan sem björgunarsveitarfólk rak út úr Kolgrafafirði í gærkvöld er komin þangað aftur. Þetta staðfestir Bjarni Sigurbjörnsson, bóndi á Eiði, sem sér dýrin greinilega út um gluggann hjá sér, um 50 metra frá landi. „Þeir eru bara hér í rólegheitum – svamla hérna í einum bunka,“ segir hann í samtali við ruv.is. „Það er eitthvað sem segir þeim að fara hérna inn.“

Björgunarsveitarmaðurinn Einar Þór Strand greindi frá því í Morgunútvarpi Rásar 2 að hvalirnir væru sennilega komnir aftur inn í fjörðinn og hafði það eftir strætisvagnstjóra sem hafði átt leið um þjóðveginn.

Einar var kallaður á vettvang í gær ásamt fleiri björgunarsveitarmönnum. Hann segir að hvalirnir hafi farið inn í fjörðinn, undir brúna, sennilega á aðfallinu og gert sig þar heimakomna.

„Menn höfðu einhverjar áhyggjur af að þeir kæmust ekki út aftur þannig að við vorum fengnir til að stugga við þeim,“ segir hann. Björgunarsveitarmennirnir hafi farið út á fjörðinn á slöngubátum.

„Þú smalar þessu í rauninni bara eins og þú sért hundur að smala kindum og þeir fara undan bátunum. Vesenið var að þegar þeir komu að brúnni þá var straumurinn á móti og þeir vildu ekki synda á móti straumnum. Svo biðum við eftir að fallið snerist og það færi að falla út, héldum þeim þarna við brúna og svo þegar fyrsta dýrið fór þá fór hjörðin á eftir,“ segir Einar.

Skugginn af brúnni hafi líka truflað. „Á meðan skugginn var af brúnni þá forðuðust þeir skuggann. Það var eiginlega ekki fyrr en skugginn hvarf – þegar fór að verða skýjað – að þá urðu þeir ekki eins hræddir við að fara undir. En svo virðast þeir ekkert vera hræddir við að fara inn.“

Einar hefur starfað á svæðinu í yfir 20 ár og aldrei vitað til þess að grindhvalir syndi inn í fjörðinn. Hann segist ekki vita hvað verði gert í dag. „Á meðan þeir eru ekki farnir að stranda ætti maður kannski bara að láta þá í friði.“

 

Deila: