Metbyrjun á nýju ári

Deila:

„Framleiðsla og útflutningur á eldisafurðum hefur farið afar vel af stað í byrjun árs. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 13,3 milljarða og er það langhæsta upphæð á þessu tímabili frá upphafi.” Þetta kemur fram í frétt á vef Radarsins, mælaborði sjávarútvegsins.

Þar segir að útflutningsverðmæti afurða hafi í janúar og febrúar verið 35% hærra en á sama tímabili í fyrra, í krónum talið. Febrúarmánuður sé þriðji stærsti útflutningsmánuðurinn frá upphafi, og janúar sá fjórði.

„Samhliða auknum útflutningi hefur hlutfall eldisafurða af verðmæti alls vöruútflutnings aukist til muna. Vægi eldisafurða í vöruútflutningi var þannig 8,4% í janúar og febrúar. Síðustu ár hefur vægi þeirra verið í kringum 6% á fyrstu tveimur mánuðum ársins og var 6,4% á síðasta ári. Þetta má lesa úr bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruviðskipti sem birtar voru í síðustu viku. Þar eru ekki birt útflutningsverðmæti eða magn niður á einstaka tegundir, en þær tölur verða birtar í lok þessa mánaðar. Gera má fastlega ráð fyrir að yfir 90% þessara 13,3 milljarða megi rekja til útflutnings á laxi, en hlutfall lax var um 92% í janúar.”

Deila: