„Vinna hefur aldrei drepið nokkurn mann“

Deila:

„Nú er bara gaman og tíminn líður hratt á vertíðum. Vinna hefur aldrei drepið nokkurn mann,“ er haft eftir Kristjáni Lúðvík Möller – sem kallaður er Bassi í daglegu tali – í umfjöllun á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar. Bessi er verkstjóri í saltfiskframleiðslu Vinnslustöðvarinnar. Nú er vertíð í Vinnslustöðinni en hún hófst með látum í febrúar. Þetta er gósentíð, botnlaus keyrsla með skiptipásum frá morgni til kvölds svo vélar í vinnslunni stoppi aldrei, eins og það er orðað í greininni. Lífið snýst að sögn um að vinna, borða og sofa.

Fram kemur í greininni að nú sé seinni hálfleikur í starfsferli Bassa. „Bassi hóf störf hjá Vinnslustöðinni fyrir einum áratug eða svo, fyrst sem verkstjóri í frystingu en síðar í saltfiski. Saltfiskvinnsla var reyndar örlagavaldur í lífinu. Hann kom nefnilega fyrst til Vestmannaeyja sem 15 ára skólastrákur frá Reykjavík til að vinna hjá föðurbróður sínum og verkstjóra Ísfélagsins, Kristni T. Möller. Sumarlífið varð saltfiskur í Eyjum næstu árin en svo lágu leiðir þeirra Ólafar Helgadóttur saman. Hún er inngróin Eyjakona og þar með kom að því að Bassi fór ekki til baka suður um haustið.“

Starfsmenn í saltfiskvinnslunni eru jafnan á bilinu 55 til 60, fjölþjóðlegur og góður hópur. „Við Íslendingarnir erum innan við tíu og með okkur starfar fólk frá Portúgal, Póllandi, Eystrasaltsríkjum, Slóveníu, Gana og víðar að,” er haft eftir honum.

Greinina í heild má lesa hér.

Myndin er af vef Vinnslustöðvarnnar.

Deila: