Áratugur mikils vaxtar í landeldi fram undan

Deila:

„Uppbyggingarhraðinn á stóru landeldisverkefnunum hefur verið aðeins hægari en lagt var upp með í byrjun en eftir sem áður eru engin merki um annað en allir ætli að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Þetta er bara spurning um tíma
og ég sé fyrir mér að það verði mikið um að vera í seiða- og landeldisuppbyggingunni næstu 5-10 árin. Ég held að þetta sé ekki neikvætt heldur þvert á móti jákvætt að þessi atvinnugrein byggist upp hægar og markvisst,“ segir Sölvi Sturluson, framkvæmdastjóri hjá þjónustufyrirtækinu Aqua.is-Eldisvörum í Hafnarfirði. Fyrirtækið hefur verið rekið í sex ár og veitir eldisfyrirtækjum víðtæka þjónustu, bæði í formi sölu búnaðar og ráðgjafar. Sem dæmi um búnað má nefna fóðurkerfi, súrefniskerfi, lýsingarbúnað, loftara, tromlusíur, kerin sjálf, stálsmíði og uppsetningu ef óskað er.

Stök tæki eða heil stöð í boði!
„Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á þjónustu við seiða- og landeldishluta fiskeldisins og þar nýti ég mér mína reynslu afstörfum í landeldinu á sínum tíma. Ég er þess fullviss að viðskiptavinir okkar kunna að meta þá reynslu og innsýn sem við búum yfir,“ segir Sölvi. Aðspurður hvernig fyrirtækið hafi þróast frá stofnun segir hann Aqua.is-Eldisvörur bjóða mjög fjölþættan búnað og í reynd flest þau tæki sem landeldisstöðvarnar þurfi á að halda.

„Með samstarfi sem við höfum í dag við Trefjar hér í Hafnarfirði erum við komnir á þann stað að geta boðið heildarlausnir fyrir seiða- og landeldið. Við getum því í reynd afhent allan búnað sem tengist fiskinum frá upphafi framkvæmdanna þar til rekstur hefst. Við tökum okkar búnað alfarið frá birgjum í Evrópu og þar er um að ræða framleiðendur sem eru mjög þekktir og njóta mikils trausts fyrir sinn búnað. Bygging fiskeldisstöðvar kostar mikla fjármuni og við gerum okkur grein fyrir að það er lykilatriði að búnaðurinn sé gæðavara og virki vel.“

Ráðgjöf við grunnhönnun ef óskað er
Sölvi segir dæmi um það í stórum landeldisverkefnum sem nú eru í burðarliðnum að Aqua.is-Eldisvörur hafi komið að grunnhönnun með ráðgjöf um útfærslur. „Þetta er óháð því hvort að búnaður í viðkomandi stöð komi allur frá okkur en fyrir okkur er ákveðin viðurkenning að til Aqua.is-Eldisvara sé leitað sem ráðgjafa. En vissulega er það líka í sumum tilfellum þannig að eigendur stöðvanna vilja kaupa heildarlausn og alla stöðina í gegnum einn og sama aðilann en aðrir kjósa að kaupa búnað frá mismunandi birgjum,“ segir Sölvi.

Nánar er rætt við Sölva í Sóknarfæri

Á myndinni eru þeir Kjartan Már Másson, sölustjóri og Sölvi Sturluson, framkvæmdastjóri.

Deila: