Vilja segja Smugusamningnum upp

Deila:

„Samningar milli Noregs og Íslands um skipti á veiðiheimildum eru Íslandi verulega í hag. Verðmæti fiskafla Íslendinga samkvæmt samningum er tvöfalt meira en Norðmenn fá út úr sínum hlut. Þess vegna ættu norsk stjórnvöld að segja samningnum upp eða breyta honum verulega.“ Þetta segir í bréfi samtaka norskra útgerðarmanna til ráðuneytis sjávarútvegs og atvinnumála í Noregi.

Samtök útgerðarmanna, Fiskebåt, hafa oft á síðustu árum tekið þetta mál upp við norsk stjórnvöld og farið fram á breytingar eða uppsögn samningsins. Stjórnvöld hafa ekki orðið við þeirri beiðni og segja að hann byggist á gagnkvæmum heimildum og hagsmunum. Útgerðarmenn eru ósammála þeirri túlkun.

Samningurinn hefur verið gildi frá 15. maí 1999 og var gerður í kjölfar þess að fjöldi íslenskra togara hafði stundað umfangsmiklar veiðar á hafsvæði í Barentshafinu, sem var utan lögsagna bæði Norðmanna og Rússa. Í ljósi þess var hafsvæðið kallað Smugan. Samningurinn er í heildina þríhliða, það er á milli Íslands, Noregs og Rússlands um heimildir íslenskra skipa til veiða í Barentshafinu. Innan hans eru sérstakir tvíhliða gagnkvæmir fiskveiðisamningar Íslands við hvort hinna ríkjanna. Samkvæmt samningi Íslands og Noregs fá Norðmenn heimildir til veiða á loðnu og botnfiski innan lögsögu Íslands gegn þorskkvóta Íslands í Barentshafinu auk meðafla.

Samkvæmt þessum samningi mega Íslensk skip sækja 8.121 tonn af þorski auk 30% meðafla í lögsögu Noregs í Barentshafi á þessu ári. Á móti megi Norðmenn veiða 31.165 tonn af loðnu á vertíðinni 2016/2017 auk botnsfisks samkvæmt bréfi norsku útgerðarmannanna.
Í bréfinu segir ennfremur að íslensk stjórnvöld hafi gefið út margvíslegar reglugerðir sem geri norskum skipum erfitt fyrir með veiðar innan íslensku lögsögunnar. Það leiði til lélegrar afkomu við veiðarnar og auki á ójafnvægið sem felist í samningnum enn frekar.

Norsku útgerðarmennirnir telja samningurinn við Ísland styrki ekki fiskveiðistjórnun í Barentshafi. Þeir benda ennfremur á að á öðrum fiskveiðistjórnunarsvæðum séu Íslendingar til dæmis að veiða makríl í trássi við vísindalega ráðgjöf. Þess vegna meðal annars sjái þeir enga ástæðu til þess að Íslendingar fái einhverja sérmeðhöndlun í Barentshafi umfram aðrar þjóðir.

Deila: