Kristina EA seld til Rússlands
Fjölveiðiskipið Kristina EA hefur verið selt til Rússlands og verður afhent nýjum eigendum í næstu viku. Þar með lýkur ríflega 10 ára sögu þess í eigu Samherja.
Kristina EA er um 7.000 tonn að stærð og 105 metra langt, smíðað á Spáni árið 1994. Það varð stærsta skip íslenska fiskveiðiflotans þegar það kom hingað til lands í maí 2005 og bar þá nafnið Engey RE-1. Samherji keypti skipið í mars 2007 af HB-Granda hf. og nefndi það Kristina EA.
Skipið hefur reynst farsælt í rekstri þennan áratug. Það fór í sína síðustu veiðiferð á laugardaginn 16. september sl. og lagði upp frá Færeyjum. Það hóf veiðar daginn eftir í svokallaðri Síldarsmugu á alþjóðlega hafsvæðinu á milli Íslands, Færeyja og Noregs. Kristina landaði 2.180 tonnum af frystum makríl í Hafnarfirði á þriðjudaginn eftir 6 sólarhringa á miðunum. Áhöfnin notaði tímann á siglingunni til Hafnarfjarðar til að klára að frysta aflann. Áætlað aflaverðmæti er um 300 milljónir króna. Síðasta veiðiferðin reyndist sú besta í 10 ára sögu skipsins hjá Samherja.