Byrjaði sjö ára á sjó

Deila:

Hann byrjaði sjö ára á sjó með afa sínum í Grímsey og sjónum hefur hann verið tengdur sterkum böndum síðan. Útivist er honum hugleikin, samvistir með fjölskyldunni og kjöt í karrý er í uppáhaldi, en annars er hann alinn upp við að borða allan mat.

Nafn:

Eiríkur Óli Dagbjartsson.

Hvaðan ertu?

Fæddur og uppalinn Grindvíkingur. Móðir mín er fædd og uppalin í Grímsey, en faðir minn frá Grindavík. Föðuramma mín var fædd og uppalin í Vestmannaeyjum.

Fjölskylduhagir?

Ég er giftur Sólveigu Ólafsdóttur. Við eigum fjórar dætur og fimm afastráka.

Hvar starfar þú núna?

Ég starfa sem útgerðarstjóri frystiskipa hjá Þorbirni hf.

 Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég var sjö ára þegar ég byrjaði að fara á sjó með afa í Grímsey og fór marga róðra það sumar og næsta 1973. 12 ára var ég svo á sjó með bróður mömmu í Grímsey og man eins og það hafi gerst í gær þegar hann kom út á dekk og tilkynnti okkur að Elvis væri allur, þvílíkt sjokk.

 Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er erfitt að tilgreina eitt atriði. Mér dettur í hug samskipti við samstarfsfólk til lands og sjávar og erlendis. Sjávarútvegur er mjög lifandi grein þar sem aðstæður breytast oft mikið á stuttum tíma og það er alltaf gaman að takast á við nýjar áskoranir.

 En það erfiðasta?

Ætli það tengist ekki starfsmannamálum og slysum.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Hér er ég alveg blankur en það er eflaust eitthvað skrýtnara en annað sem upp hefur komið.

 Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir eru margir og ég vill síður gera upp á milli. Fullt af flottum karakterum sem maður hefði ekki viljað missa af að kynnast. Hér væri allt í lagi að segja: Pabbi kenndi mér auðvitað margt og það var gott að hafa hann á kantinum/símtali frá og bæta svo við því sem þú sagðir um að þú viljir síður gera upp á milli.

 Hver eru áhugamál þín?

Ferðalög með frúnni standa upp úr. Á sumrin erum við dugleg að ferðast með hjólhýsið og förum svo reglulega erlendis á veturna. Það er fátt sem toppar göngutúra í íslenskri náttúru. Ég á hraðfiskibát með bræðrum mínum sem ég hef gaman af að skreppa á endrum og sinnum til að hjálpa upp á gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Ég er einkaflugmaður. Og svo leik ég stundum handlaginn heimilisföður og grúska í ýmsu viðhaldi. Samvera með stórfjölskyldunni er alltaf yndisleg. Við systkin og mamma eigum líka Svefneyjar á Breiðafirði hvar við komum saman á vorin og tínum æðardún og förum í vinnuferðir. Ég held að það sé eitthvað í genunum sem veldur því að við kunnum afskaplega vel við okkur í eyjum.

 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Kjöt í karrý með sósu frúarinnar eða hennar kjúlli í mangó kemur fyrst upp í hugann en ég borða nánast allan mat og bý líklega að því að við systkinin vorum alin upp við að borða allan mat.

 Hvert færir þú í draumfríið?

Í dag mundi ég segja Zermatt í Sviss. Það er með flottari skíðasvæðum á vetrum en á sumrin er það  paradís fyrir göngufólk og við prófuðum það í fyrra. Vélknúnir bílar voru bannaðir upp úr 1980 og þar eru aðeins nokkrir rafmagnsbílar svo bæjarbragurinn er einstakur. Næst mundi ég vilja fara í skíðaferð þangað.

Sólveig og Eiríkur með ömmu- og afastrákana

 

 

Deila: