Lúða í brauð- og möndlumylsnu

Deila:

Lúðan er drottning hafdjúpanna. Fáir eða engir fiskar verða stærri og hún er sveipuð mikilli dulúð og um hana eru til fjölmargar sagnir. Lúðan hefur alla tíð verið kölluð happadráttur og að draga stórlúðu á færi þótti mikill fengur, enda dugði stór lúða í mat fyrir ansi marga. Nú eru beinar veiðar á lúðu bannaðar til að vernda stofninn, sem talinn er hafa verið ofveiddur. Komi lúða í veiðarfæri skal sleppa henni aftur í sjóinn, sé hún lífvænleg. Annars má hirða hana en skylt að selja hana á fiskmarkaði og skal andvirðið renna í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Því er oftast hægt að fá lúðu í góðum fiskbúðum og betri matfisk er vart hægt að hugsa sér.

Innihald:

 • 1/3 bolli hrein jógúrt
 • 1 stórt egg
 • 1 msk Dijon sinnep
 • 2/3 bolli brauðmylsna
 • 1/4 bolli saxaðar ristaðar möndlur
 • 1 msk saxað ferskt oregano
 • 1 msk fersk minta söxuð
 • 1/4 tsk salt
 • 1/4 tsk nýmalaður svartur pipar
 • 800 g lúða í fjórum jöfnum bitum
 • 4 sítrónubátar

Aðferð:

Forhitið ofninn í 200 gráður. Smyrjið ofngrind með matarolíu og leggið til hliðar.
Blandið saman jógúrt eggi og Dijon sinnepi í skál og þeytið vel saman.
Blandið næst saman öðrum efnum en lúðunni í grunnri skál.
Veltið lúðubitunum upp úr brauðmylsnublöndunni, dýfið þeim síðan í jógúrtblönduna og veltið loks aftur upp úr brauðmylsnublöndunni. Leggið þá síðan á ofngrindina.
Bakið lúðubitana í 12 til 15 mínútur eða þar til fiskurinn er orðinn gullinn og gegneldaður.
Ath. Gott er að hafa ofnskúffu undir grindinni til að taka við hugsanlegum leka úr fiskbitunum.
Berið lúðuna fram með sítrónubátum, fersku salati, soðnum kartöflum eða hrísgrjónum.

Deila: