Hrósmiðar og hamborgarar á starfsmannafundi

Deila:

Þótt Landhelgisgæslan sé rúmlega níutíu ára gömul er stofnunin lifandi og tekur sífelldum breytingum í takt við verkefni hvers tíma. Undanfarin misseri hefur staðið yfir víðtæk endurskoðun á skipulagi stofnunarinnar og í gær var komið að því að kynna afrakstur þeirrar vinnu. Af því tilefni var boðað til starfsmannafundar í flugskýli LHG á Reykjavíkurflugvallar samkvæmt frétt á heimasíðu Gæslunnar.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri LHG, hóf fundinn með stuttu ávarpi. Að því búnu kynnti fulltrúi Capacent nýjar tillögur að skipulagi og breyttu skipuriti stofnunarinnar, en fyrirtækið hefur verið stjórnendum LHG innan handar við þessa vinnu. Í kjölfarið spunnust gagnlegar og málefnalegar umræður um þessar breytingar.

Því næst kynntu Sandra Margrét Sigurjónsdóttir fjármálastjóri og Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri á aðgerðasviði, stöðu og horfur í fjármálum og helstu verkefnum. Svanhildur Sverrisdóttir mannauðsstjóri heiðraði svo þá starfsmenn stofnunarinnar sem fagna þeim áfanga á árinu að verða fimmtugir eða sextugir.

Rúsínan í pylsuendanum var svo sérstaklega skemmtilegt framtak sem Reynir Garðar Brynjarsson viðhaldsskipulagsstjóri á heiðurinn af: Sérútbúnir hrósmiðar til samstarfsfélaganna. Reynir kynnti þessa góðu hugmynd á fundinum, hún er að fyrirmynd svipaðra miða sem starfsfólk Air Iceland Connect hefur sent hvert öðru sem klapp á bakið fyrir vel unnin störf eða bara almenn almennilegheit. Góður rómur var gerður að þessu hressandi tiltæki sem á örugglega eftir að bæta enn frekar starfsandann hjá LHG, sem var raunar alveg hreint prýðilegur fyrir.

Fundinum lauk svo með hamborgaraveislu í haustblíðunni í Nauthólsvík, hugsanlega einni af síðustu grillveislum ársins áður en veturinn gengur í garð.

 

Deila: