Ríflega 100 skip og bátar á sjó

Deila:

Ríflega 100 skip hafa verið á sjó í dag og gær og hefur viðrað þokkalega til veiða. Þó er í dag stormur á 5 af 17 spásvæðum, en þau eru á djúpmiðum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni voru þetta bátar og skip af flestum stærðum og gerðum „öll flóran“ og gekk allt áfallalaust fyrir sig.
Skip og bátar verða að vera í landi yfir helgustu jóladagana og síðan áramótin en mega sækja sjó milli jóla og nýárs.

Á árum áður var hins vegar leyfilegt að vera úti yfir allar hátíðirnar samfellt og voru svokallaðir jólatúrar togara þá algengir. Síðar var slík sjósókn takmörkuð við þau skip sem voru að fiska í siglingu, en langhæsta verðið fékkst alla jafnan á erlendum fiskmörkuðum eftir landanir upp úr áramótum. Var þá ýmist landað í Bremerhaven eða Cuxhaven í Þýskalandi eða Hull og Grimsby í Bretlandi.
Meðfylgjandi mynd er skjáskot af skipavefnum marinetraffic.com

Deila: