Harma pólitískt moldvirði

Deila:

Eftirfarandi yfirlýsing er birt á heimasíðu Samherja í kjölfar „pólitísks moldvirðis“ vegna boðsferðar á nafngift tveggja nýrra togara dótturfyrirtækis Samherja í Þýskalandi. Yfirlýsingin er undirrituð af fulltrúum fyrirtækja sem komu að smíði togaranna og skipulagningu umræddar boðsferðar.

Félagið Deutsche Fischfang Union í Þýskalandi, sem er í eigu Samherja hf. á Akureyri, réðist nýverið í sína fyrstu nýsmíði skipa í tæpa þrjá áratugi. Félagið hefur árum saman unnið með félögum á Eyjafjarðarsvæðinu með góðum árangri og hefur notið starfskrafta sjómanna af svæðinu. Vegna þessara sterku tengsla og góðrar reynslu var óskað eftir aðkomu íslenskra fyrirtækja að nýsmíðunum, þar með talið nokkurra fyrirtækja í Eyjafirði, t.a.m. Slippsins, Ásverks, Rafeyrar, Ferðaskrifstofu Akureyrar, Raftákns, Raf-Tækni, M-Tech, Samhenta, Fjarðanets, Brimrúnar, Nortek, Eimskips Akureyri, Rösks Rafvirkja, Kælismiðjunnar Frosts, Vélfag og N. Hansen auk Héðins, Sæplasts og Marel. Fjárfest var í hugviti og tækni þessara aðila í skipin tvö fyrir vel á annan milljarð króna.

Komu skipanna Cuxhaven NC og Berlin NC var fagnað og þeim gefið nafn við hátíðlega athöfn í Cuxhaven í Þýskalandi. Athöfnina sóttu á fjórða hundrað manns frá alls sautján löndum. Þýskir embættismenn og stjórnmálamenn gerðu sér far um að mæta og komu hvaðan æva að, svo sem frá Cuxhaven, Hannover, Berlin, Hamborg og víðar.

Skipin tvö eru meðal annars glæsilegir fulltrúar íslensks hugvits og tækni og fyrirmynd annarra skipa. Þannig bera þau hróður íslensku fyrirtækjanna og kynna búnað þeirra víðar.

Það hvarflar ekki að undirrituðum annað en að oddvitar þeirra stjórnmálaflokka sem sitja í bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar eigi að hafa áhuga á og taka tíma til að sjá afrakstur vinnu þeirra fyrirtækja sem starfa á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu og kynna sér þannig starfsemi þeirra og stöðu. Það hlýtur að vera mikilvægur liður í því að taka þátt í að reka heilt bæjarfélag, að vita hvernig starfsemi fyrirtækja á svæðinu er háttað. Að sama skapi hvarflaði ekki að undirrituðum að nokkur myndi líta á umrædda ferð öðrum augum.

Þeir sem bjóða sig fram til bæjarstjórnar gera það til að hafa áhrif og bjóða fólki og fyrirtækjum á svæðinu upp á sem best skilyrði til að lifa og dafna. Það er því fullkomlega eðlilegt að kjörnir fulltrúar mæti og/eða þekkist boð á viðburði sem skipta eða snerta sveitarfélagið á einhvern hátt, hvort sem um er að ræða viðburði á sviði atvinnulífs, mannlífs eða menningar. Okkur vitanlega hefur ekki verið amast við þátttöku kjörinna fulltrúa í viðburðum á slíkum sviðum til þessa.

Fyrirkomulag þessarar athafnar var á engan hátt frábrugðið sambærilegum athöfnum sem tengjast nafngift nýrra skipa Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa á liðnum árum. Oddvitum stjórnmálaflokka í viðkomandi sveitarfélögum er ávallt boðið að taka þátt í slíkum athöfnum með einum eða öðrum hætti. Það segir sig sjálft hvað varðar athöfnina í Þýskalandi að félagið gerði ekki ráð fyrir því að gestir, hvort sem um ræðir kjörna fulltrúa eða aðra gesti frá Íslandi, kæmu sér þangað sjálfir og heim aftur á eigin kostnað, og enn síður á kostnað útsvarsgreiðenda.

Þær ásakanir sem fram hafa komið á hendur þeim oddvitum sem þekktust boðið vekja undrun undirritaðra og hörmum við að búið sé til pólitískt moldviðri í þessu samhengi. Endurspegla þær ásakanir frekar þá staðreynd að til eru kjörnir fulltrúar sem sýna atvinnulífi hér á svæðinu lítinn áhuga eða skilning.

Eiríkur S. Jóhannsson                             Slippurinn Akureyri ehf.

Ragnheiður Jakobsdóttir                          Ferðaskrifstofa Akureyrar

Jóhann Hauksson                                    Raf-Tækni ehf.

Gunnar Reynisson                                   Raftákn ehf.

Þórður Stefánsson                                   Ásverk ehf.

Einar Guðmann                                        Ljósmyndari

Gyða Henningsdóttir                                 Ljósmyndari

Davíð Hafsteinsson                                  Rafeyri ehf.

Gunnar Larsen                                         Kælismiðjan Frost ehf.

Ólöf Ýr Lárusardóttir                                 Vélfag ehf.

Bjarmi A. Sigurgarðarsson                       Vélfag ehf.

Björgvin Tómasson                                  Nortek ehf. og Nordata ehf.

Ingi A. Hansen                                           N. Hansen ehf.

Hermann Guðmundsson                          Fjarðanet ehf.

Sveinn Sveinsson                                     Brimrún ehf.

Einar Eyland                                              Eimskip Akureyri

Trausti Hákonarson                                   Röskur Rafvirki ehf.

Magnús Magnússon                                  M-Tech ehf.

Gísli Sveinsson                                         Samhentir ehf.

Hannes Kristjánsson                                Skipstjóri á Cuxhaven

Kristján V. Vilhelmsson                             Samherji hf.

Þorsteinn Már Baldvinsson                      Samherji hf.

 

Deila: