Bylting í nýtingu þorsksins

Deila:

Verðmæti þorskaflans er ekki bara mælt í seldum þorskafurðum, fleira kemur til,“ segir í samantekt á Radarnum, mælaborði sjávarútvegs um verðmætasköpun í framleiðslu þorskafurða. Nærri lætur að tvöfalt meira nýtist af hverjum þorski hér á landi en víðast annars staðar í heiminum.

Stærstu tækifærin í hliðarafurðunum
„Fjölmörg fyrirtæki í nýsköpun hafa búið til aukin verðmæti úr svo kölluðum hliðarafurðum úr þorskinum, sem hér áður fyrr var hent. Þar má í raun tala um byltingu. Taka má dæmi af fyrirtækinu Kerecis sem gerir ráð fyrir að velta um 20 milljörðum króna á þessu ári. Það framleiðir svo kallað sáraroð úr þorskroði. Þá eru ótalin fyrirtæki sem framleiða aðrar lækningavörur, fæðubótarefni og snyrtivörur. Hér eru kannski stærstu tækifærin til aukinnar verðmætasköpunar úr sjávarauðlindinni. Fyrir slíka vinnslu skiptir sköpum að fyrirtækin hafi aðgang að fyrsta flokks hráefni. Með ofangreindum fjárfestingum, sem ætlað er að tryggja gæði og ferskleika, er ljóst að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa hvergi slegið slöku við í þeim efnum. Fullnýting afurða hefur í raun verið eitt helsta viðfangsefni sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum árum. Samkvæmt greiningufrá Sjávarklasanum frá árinu 2021 hafa Íslendingar um langt árbil staðið öðrum þjóðum framar í nýtingu á hliðarafurðum úr hvítfiski. Í það minnsta 90% af hverjum þorski eru nýtt með einum eða öðrum hætti hér á landi, en víðast hvar annars staðar er hlutfallið 45-55%,“ segir í umfjölluninni.

Deila: