Fá meira fyrir minna

Deila:

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum skilaði samtals 3,5 milljörðum færeyskra króna á fyrstu fimm mánuðum ársins, en það svarar til 56 milljarða íslenskra króna. Það er aukning um 10%. Þrátt fyrir þessa verðmætaaukningu dróst magnið verulega saman eða um 24%.

Það er að venju laxinn sem mestu skilar í útflutningnum eða 26 milljörðum íslenskra króna, sem er 17% vöxtur frá sama tímabili í fyrra. Næst kemur uppsjávarfiskurinn, makríll, síld og kolmunni, sem skilaði 11,5 milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um 28%. Þá kemur botnfiskurinn, þorskur ýsa og ufsi. Verðmæti þess útflutnings var 7,7 milljarðar krónur.

Alls voru flutt utan 188.821 tonn af sjávarafurðum til maíloka í ár. Það er fall um 60.516 tonn frá því á sama tíma í fyrra þegar 249.337 tonn fóru utan. Af botnfiski fóru nú utan 16.696 tonn, sem er samdráttur um 9%. Ríflega 87.000 tonn af uppsjávarfiski voru nú flutt út, sem er samdráttur um 15.000 tonn eða 15%. 26.477 tonn af eldislaxi fóru nú utan og var það vöxtur um 2%. Mestur er samdrátturinn í afurðaflokknum annar fiskur. Þar fellur magnið úr 67.970 tonnum í 22.786 tonn. Mismunurinn er 45.184 tonn eða um 66%.

Deila: