Veiðigjöld verði innheimt við sölu afla
Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um veiðigjöld. SFÚ telur að ákvörðunin sé ekki til þess fallin að auka framboð af fiski inn á fiskmarkaði en það hefur verið baráttumál samtakana. Samtökin telja að aðgerðir ráðherra fram til þess hafi beinst að því að styrkja sérstaklega stórútgerðina, til dæmis með því að heimila að flytja 30% veiðiheimilda milli kvótaára.
SFÚ telur það slæma tilhögun að miða fjárhæð veiðigjalda við afkomu fyrirtækja og fráleita útfærslu á þeirri slæmu tilhögun að miða við afkomu tveimur árum fyrir gjaldtöku. Ókostir þessa koma berlega í ljós nú, þegar viðskipta- og rekstrarumhverfi í sjávarútvegi er allt annað og óhagstæðara en var fyrir tveimur árum.
Sem fyrr segir telur SFÚ að alvarlegir annmarkar séu á því að ákvarða veiðigjöld eftir afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi. Eðlilegra er að taka mið af afkomu eins og hún er á gjaldtökuári og markaðstengja hana. Einfaldasta leiðin til slíkrar gjaldtöku er að innheimta sérstakt gjald í ríkissjóð við skipshlið, þegar afli er seldur. Slíkt gjald mætti hugsa sem eins konar söluskatt.
Til að efla fiskmarkaði og tryggja nægilegt framboð af fiski inn á markaði væri eðlilegt að veita afslátt af þessum söluskatti þegar fiskur er seldur á fiskmarkaði. Fiskmarkaðir myndu annast innheimtu á gjaldinu af þeim afla sem þar er seldur í gegn en aðilar sem selja sjálfum sér aflann skulu sjálfir standa skil á greiðslu gjaldsins í ríkissjóð t.d. um leið og þeir gera upp við sjómenn.