Barði seldur til Rússlands

Deila:

Togarinn Barði NK 120 hefur verið seldur fyrirtæki í Murmansk í Rússlandi. Nokkrir Rússar hafa verið í Neskaupstað síðustu daga til að taka á móti skipinu. Barði sigldi síðan á brott frá Neskaupstað í gær.

Rússneski skipstjórinn Rinat Ulyukaev. Ljósmynd Smári Geirsson

Rússneski skipstjórinn Rinat Ulyukaev.
Ljósmynd Smári Geirsson

Að sögn hins rússneska skipstjóra skipsins, í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, er ferðinni fyrst heitið til Kirkenes í Norður-Noregi en þar verður vinnslubúnaði komið fyrir um borð. Síðan er gert ráð fyrir að haldið verði til rækjuveiða. Annars sagði rússneski skipstjórinn að gert væri ráð fyrir að skipið myndi fiska víða í norðurhöfum í framtíðinni.

Togarinn Barði var smíðaður í Flekkefjord í Noregi  fyrir Skipaklett hf. á Reyðarfirði árið 1989 og bar upphaflega nafnið Snæfugl. Skipaklettur hf. og Síldarvinnslan sameinuðust árið 2001. Um tíma var skipið leigt skosku útgerðarfyrirtæki og bar þá nafnið Norma Mary en haustið 2002 hóf Síldarvinnslan að gera það út og fékk það þá nafnið Barði. Síldarvinnslan gerði Barða fyrst út sem frysti- og ísfiskskip en síðar var megináhersla lögð á að frysta aflann um borð. Árið 2016 var síðan allur vinnslubúnaður fjarlægður úr Barða og var hann rekinn sem ísfisktogari frá þeim tíma.

Salan á Barða er liður í endurnýjun á ísfisktogaraflota Síldarvinnslunnar en áður hefur komið fram að fyrirtækið hyggst láta smíða fjóra nýja togara í stað þeirra sem nú eru í rekstri.

Ljósmynd Húnbogi Sólon.

 

Deila: