FleXicut kerfi númer tvö í Ný-Fisk hf. Sandgerði

Deila:

Fiskvinnslan Ný-Fiskur í Sandgerði hefur tilkynnt um kaup á öðru FleXicut kerfi frá Marel til notkunar í vinnslu sinni. Salan markar tímamót, en kerfið er jafnframt það tíunda sem sett verður upp hér á landi.

Ný-Fiskur var ein af fyrstu vinnslunum til þess að festa kaup á FleXicut vatnsskurðarvél eftir að hún kom á markað árið 2014. Stöðugar umbætur hafa orðið á vélinni síðan þá og hefur hún verið lykilþáttur í því að bæta meðhöndlun, framleiðni og nýtingu hráefnis við vinnslu. Tækninni hefur fleygt það mikið fram á síðustu árum að nú er hægt að bjóða upp á nánast alsjálfvirka vinnslu á afurðinni, allt frá forskurði að pökkun, auk fullkominnar bestunar á virði hvers flaks.

Gengið frá Samningum. Þorsteinn Magnússon, framkvæmdastjóri Ný-Fisks og Óskar Óskarsson , sölustjóri Marel.

Gengið frá Samningum. Þorsteinn Magnússon, framkvæmdastjóri Ný-Fisks og Óskar Óskarsson , sölustjóri Marel.

„Við erum alveg jafn spennt núna eins og þegar við tókum fyrstu vélina í notkun,“ segir Þorsteinn Magnússon framkvæmdastjóri Ný-Fisks. „Við vitum nú þegar að þessi fjárfesting mun skila sér í auknum hraða og gæðum en búumst jafnframt við því að nýju eiginleikar kerfisins munu gefa okkur mikilvægt samkeppnisforskot.“

FleXicut er ein merkasta afurð nýsköpunar í sjávarútvegi til þessa. Vélin, sem hefur sannarlega sannað sig, hámarkar virði hvers flaks og býður upp á betri stjórnun og eftirfylgni en áður.

Eins og Óskar Óskarsson, sölustjóri Marel útskýrir: „Við vissum alveg frá byrjun að FleXicut gæti bætt framleiðni, meðhöndlun og nýtingu á hráefni viðskiptavina okkar. Nú síðast hefur komið í ljós hvað hugbúnaðarhlutinn getur virkilega boðið upp á – notandinn getur stillt FleXicut til að hámarka hráefnisvirði en vélin notar síðan þær upplýsingar til að ákveða hvernig skera skuli hvert og eitt flak eftir óskum framleiðandans. Þetta er alveg hreint ótrúlegt.“

Ný-Fiskur sérhæfir sig í vinnslu og sölu á þorski ásamt öðrum ferskum sjávarafurðum. Fyrirtækið vinnur að meðaltali um 6.000 tonn af afurð á ári hverju en vörur fyrirtækisins eru aðallega fluttar til Belgíu og annarra Evrópulanda.

Áætlað er að uppsetning á FleXicut kerfinu hjá Ný-Fisk muni hefjast seinna á þessu ári.

 

Deila: