Njósnakapall og hattar fyrir góðbændur og heldrimenn

Deila:

Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um tvö tilvik þar sem áhugaverðir hlutir komu upp með veiðarfærum togara fyrirtækisins og sanna enn og aftur að margt býr í djúpinu.

Hinn 14. júní árið 1975 festi skuttogarinn Bjartur NK vörpuna í botni á stað sem var 12 sjómílur réttvísandi 103ᵒ frá Stokksnesi. Trollið reyndist afar fast en við illan leik tókst að ná upp hlerunum. Kom þá í ljós að í öðrum hleranum var fastur einhvers konar kapall sem var um það bil 6-7 tommur í þvermál. Ekki reyndist unnt að losa kapalinn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og að því kom að ákvörðun var tekin um að höggva á hann. Þegar kapallinn fór í sundur kom í ljós að rafstraumur var á honum. Þeir Bjartsmenn tóku bút af kaplinum og var hann lagður fram við sjópróf sem fóru fram í Neskaupstað þegar í land var komið.
Nokkrum dögum áður en kapallinn festist í veiðarfærum Bjarts höfðu skipverjar orðið varir við torkennilegt skip á þeim slóðum sem togarinn var að veiða á. Þoka var þennan dag og sást skipið ógreinilega en þarna virtist vera um einhvers konar rannsóknaskip eða kapallagningarskip að ræða. Magni Kristjánsson, skipstjóri á Bjarti, upplýsti að kapallinn sem festist í toghleranum væri augljóslega nýkominn í sjó og því var talið líklegt að umrætt skip hefði verið að leggja hann. Þá kom fram að kapallinn hefði verið lagður á fiskisælli slóð og því væri hætta á að hann myndi valda fleiri veiðiskipum tjóni.

Töluverð umræða skapaðist um umræddan kapal og var fljótlega byrjað að tengja hann herstöðinni sem þá var á Stokksnesi. Talið var líklegt að hér væri um njósnakapal að ræða og hefði hann átt að gegna því hlutverki að afla upplýsinga um ferðir kafbáta við landið. Dagblaðið Þjóðviljinn tók málið til umfjöllunar og var þar greint frá því að NATO hefði lagt njósnakapal frá Stokksnesi til Noregs og reyndar einnig frá Reykjanesi til Ameríku. Blaðið fór þess á leit við íslenskar stofnanir að þær gæfu upplýsingar um kapalinn sem Bjartur hafði fest veiðarfærin í en fátt var um svör. Siglingamálastofnun gaf engin svör, Sjómælingar Íslands gáfu engin svör og reyndar ekki Landhelgisgæslan heldur. Þjóðviljinn taldi allt þetta mál hið dularfyllsta en annars einkenndist umræðan um kapalinn af þeirri kaldastríðshugsun sem þá réði ríkjum.

Hattar, vínkútar og fleira góss úr fornu kaupfari

Eitt sinn þegar skuttogarinn Barði NK hífði vörpuna utarlega á Digranesflaki um 20. nóvember 1977 komu ýmsir hlutir upp með henni ásamt fiskaflanum. Í vörpunni reyndust vera brunnir trébjálkar með koparnöglum og benti allt til þess að um væri að ræða hluta af gömlu skipi. Auk trébjálkanna fylgdi ýmislegt áhugavert með. Þarna voru taustrangar, nautshorn, uppvafið leður, vínkútar og – pelar og síðast en ekki síst flókahattar sem án efa voru ætlaðir á höfuð þeirra tíma góðbænda og heldrimanna. Mikið af þessum varningi var meira og minna skemmt af bruna.

Jón Hlífar Aðalsteinsson var skipstjóri á Barða í þessari veiðiferð en þetta var í fyrsta sinn sem hann sat í skipstjórastóli á Barða. Segist hann muna vel eftir þessum óvænta afla sem fékkst í fyrsta holi veiðiferðarinnar. Sérstaklega sé eftirminnilegt að hattarnir sem komu upp í vörpunni voru fjölmargir og í stöflum. Tók Jón Hlífar nokkra hatta með sér í land og færði Skjala- og myndasafni Norðfjarðar þrjá þeirra að gjöf. Guðmundur Sveinsson forstöðumaður safnsins lét hreinsa höfuðfötin en þau voru útötuð í aur. Síðan hafa þessir áhugaverðu flókahattar verið varðveittir á safninu.

Nokkuð ljóst er að hlutirnir sem komu upp með trollinu hjá Barða voru úr fornu kaupfari sem sennilega hefur brunnið og síðan sokkið á þessum slóðum. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, fékk fregnir af þessum hlutum og hafði samband við skipstjórann símleiðis hinn 24. nóvember 1977. Þór skráði eftirfarandi minnispunkta hjá sér að loknu samtalinu:

Ég talaði við skipstjórann, Jón Hlífar Aðalsteinsson, og hann sagði, að þeir hefðu fengið leifar af skipi, bönd og tré, allmjög brunnið, og í þessu hefðu verið nokkrir brennivínskútar, brennivínspelar, taustrangar, um 60 sm breiðir, mikið af hornum af nautpeningi, karlmannahattar í ströngum, hver settur í annan, leður uppvafið og fleira og fleira. Þeir tóku tappana úr kútunum og hafði verið glögg brennivínslykt úr einum. Þetta var hálf varpa af þessu, en því miður var því nær öllu mokað í sjóinn. Skipstjórinn kvaðst hafa einn kút og einn brennivínspela, í skipi nú væri kannske eitthvað af höttum og öðru dóti og skipverjar myndu hafa eitthvað hjá sér smávegis.

Taldi þjóðminjavörður að þarna hefði togarinn fengið einstæða hluti í vörpuna og fróðlegt hefði verið að rannsaka þá ítarlega.

Þór Magnússyni voru sendar myndir af höttunum sem varðveittir eru á Skjala- og myndasafni Norðfjarðar og telur hann að þeir séu líklega ekki mjög gamlir, gætu verið frá 19. öld. Fróðlegt væri að kanna hvort einhverjar heimildir greini frá því að kaupfar hafi farist út af Austurlandi á þeim tíma.

 

 

Deila: