Stjórn Sæljóns lýsir vantrausti á sjávarútvegsráðherra

Deila:

Stjórn Sæljóns félags smábátaeigenda á Akranesi mótmælir harðlega þeim breytingum sem fram koma í drögum að reglugerð um hrognkelsaveiðar á árinu 2020 sem birt eru á samráðsgátt stjórnvalda. „Breytingar sem koma fram í þessum drögum eru svo íþyngjandi að þær geta leitt til þess að grásleppuveiðar í Faxaflóa og viðar leggjast af,“ segir ályktun frá stjórn félagsins.  Þar segir ennfremur:

Undirtóninn í þessum aðgerðum/drögum eru:

 

    • Gríðarlegt og hert eftirlit.
    • Takmarka sóknargetu. Hámarkslengd neta á hvern bát verði stytt um helming verði  3.750 m í stað 7.500 m. Ef þessar tillögur njóta brautargengis verður afkoma grásleppubáta svo léleg að fækka þarf í áhöfnum grásleppubáta, þannig að þeir verða í flestum tilfellum einungis einn maður.
    • Neyða grásleppusjómenn til að kaupa þorskveiðiheimildir, – verð á tonni er  um 2.5 milljónir fyrir varanlegar heimildir.
    • Fiskistofu verði heimilt að svipta bát veiðileyfi ef um óeðlilega veiði á botnfisktegundum að ræða þannig að magn botnfiskstegunda í þorskígildum talið sé ítrekað svipað eða meira en magn grásleppuaflans í þorskígildum talið.

Þetta eru ekkert annað  enn bein aðför að smábátasjómennsku á Íslandi.  Sú síðasta í langri röð aðgerða og tillagna frá sjávar-útvegsráðherra og opinberra aðila til þess að veikja smábáta-útgerð á Íslandi.  Við lítum á þetta útspil sem hermdaraðgerð að hálfu Kristjáns Þórs Júlíussonar vegna andstöðu okkar við kvótasetningu á grásleppu. Við höfum lagt tillögur til lausnar á vandamálum varðandi meðafla við grásleppu-veiðar, – að gefa mönnum kost á að gera hlé á veiðum án dagaskerðingar ef um óeðlilegan meðafla er að ræða. Ráðherra hefur ítrekað hafnað þeim tillögum.

Við í stjórn Sæljóns félags smábátaeigenda á Akranesi lýsum hér með yfir vantrausti á sjávarútvegsráðherra Íslands Kristján Þór Júlíusson og skorum á LS að gera slíkt hið sama.

Deila: