Krókakerfið verði óbreytt

Deila:

Fyrir aðalfundi LS lá tillaga um að krókaaflamarksbátum yrði heimilt að nota net við veiðar á tímabilinu 1. september til 15. apríl ár hvert.  Eins og vænta mátti hlaut tillagan mikla umræðu.  Í sjávarútvegsnefnd fundarins var tillagan samþykkt og því vísað áfram til sameiginlegra ákvarðanatöku fundarins.  Frá þessu er greint á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda og segir þar ennfremur:

„Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda samþykkir að leyfðar verði netaveiðar á krókaaflamarksbátum frá 1. september til 15. apríl ár hvert.  Tryggt verði að krókaaflamarkskerfið og aflamarkskerfið sameinist ekki.“

Mikil og tilfinningarík umræða varð um tillöguna með svipuðum hætt og síðustu tveim aðalfundum.

Margvíslegt rök voru færð fyrir því að leyfa netaveiðar hluta úr árinu, ekki síst nú þegar línuveiðar væru afar erfiðar vegna skorts á ýsukvóta.  Var því haldið fram að ýmsar línuútgerðir myndu fara í þrot ef þessi breyting næði ekki fram.

Sjónarmið þeirra sem andvígir voru tillögunni byggðust aðallega á að styrkleiki og sérstaða þessa helsta veiðikerfis smábáta lægi í að einungis væri heimilt að nota línu eða handfæri við veiðarnar.

Eftir um hálfrar klukkustunda umræðu var gengið til atkvæða og var tillagan felld með 21 atkvæði gegn 18.

Í lok umfjöllunar um tillögur sjávarútvegsnefndar var borin upp eftirfarandi tillaga:

„Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda leggur til að leyfðar verði netaveiðar á krókaaflamarksbátum frá 1. september til 15. apríl.  tryggt verði að kerfin sameinist ekki.  Óheimilt verði að leigja veiðiheimildir í krókaaflamarkskerfinu og veiða í net.  Á vetrarvertíð verði línuívilnun aukin þar sem færri stunda þá línuveiðar á þeim tíma.“

Að lokinni snarpri umræðu um tillöguna var hún felld með 18 atkvæðum gegn 17.

 

Deila: