Frumvarp um kvótasetningu grásleppu á samráðsgátt

Deila:

Frumvarp sjávarútvegsráðherra um kvótasetningu á grásleppu er nú til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda. Frestur til að skila inn umsögnum er til 26. júlí næstkomandi. Engin umsögn hafði borist til gáttarinnar í gær.

Í frumvarpinu er lagt til að aflaheimildum í grásleppu verði úthlutað til skipa sem eru með rétt til að veiða grásleppu samkvæmt gildandi lögum. Í núgildandi fyrirkomulagi er veiðunum stjórnað á grundvelli leyfa og dagatakmörkunum sbr. lög nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og reglugerð sem sett er fyrir hverja vertíð. Með því að breyta veiðistjórn á grásleppu mun fara um stjórnunina eftir lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á framangreindum lögum sem nauðsynlegar þykja til að breyta veiðistjórn í grásleppu úr sóknarstýringu í aflamarksstýringu. Þá er vert að nefna að í frumvarpinu er mælt fyrir um að aflahlutdeild skuli úthlutað á skip á grundvelli veiðireynslu leyfis en ekki skips eins og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða mælir fyrir um og einnig er lagt til að viðmiðunartími verði þrjú bestu veiðitímabil af árunum 2013 til og með 2018.

Deila: