Orkusjóður úthlutar 900 milljónum króna

Deila:

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að veita um 900 milljón króna í styrki til orkuskipta á þessu ári. Það er hæsta úthlutun til verkefna í orkuskiptum hingað til. Mjög mikil ásókn er í verkefnastyrki Orkusjóðs, eða fjórföld eftirspurn miðað við fjármagn sem er til úthlutunar.

Samtals fengu 137 verkefni styrk úr Orkusjóði að þessu sinni. Verkefnin dreifast á alla auglýsta flokka og eru styrkþegar í öllum landshlutum. Alls bárust um 200 umsóknir að upphæð 4 milljarða kr. og því ljóst að mikil eftirspurn er eftir styrkjum sem þessum. Ef sjóðurinn gæti styrkt öll verkefnin þá færu 12 milljarðar kr. í orkuskiptin vegna mótframlags, en styrkupphæð getur hæst numið einum þriðja af heildarkostnaði verkefna. Styrkveitingarnar eru hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og orkuskiptum.

„Það er afar hvetjandi að sjá áhugann á orkuskiptum og þann fjölda raunhæfra verkefna sem koma til greina. Sem betur fer er áhugi fjárfesta og frumkvöðla mikill, en þeir leggja til meirihluta fjármagnsins til verkefna á móti sjóðnum. Við þurfum svo sannarlega að virkja áfram þennan slagkraft sem þar er að finna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra.

Í fyrsta sinn getur sjóðurinn nú veitt umtalsverð styrkvilyrði til framleiðslu rafeldsneytis og nýtingu þess í stærri samgöngu- og flutningstækjum. Sjóðurinn hefur nú bolmagn til að styrkja endurnýjaða vegferð Íslands til notkunar á vetni í stórum flutningstækjum á landi með styrkveitingum til Clara Arctic Energy ehf. og Vetnis ehf. sem stuðla m.a. að vetnisvæðingu flutningstækja hjá Eimskip og Samskip. Þá eru verkefni varðandi varmadælur og nýtingu jarðvarma einnig styrkhæf nú. Margvísleg verkefni tengd framleiðslugreinum fá styrki. Flestir styrkirnir eru til uppsetningar á hleðslustöðvum við gististaði og fjölsótta samkomustaði. Dreifing upphæða var nokkuð jöfn milli áhersluflokka, en mestu þó veitt til flokksins raf- og lífeldsneyti og metan.

Styrkveitingarnar nú endurspegla m.a. aukna áherslu á rafvæðingu hafna og orkuskipti í fiskiskipum, m.a. breytingu fiskiskipa þannig að þau gangi fyrir metanóli, sem hægt er að framleiða með grænni raforku. Þar má nefna verkefni Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem hyggst breyta vinnsluskipinu Guðmundi í Nesi RE13 þannig að það geti brennt metanóli að talsverðum hluta.

„Það er ánægjulegt að sjá hvernig verkefnin spanna vítt svið og dreifast um landið sem er það sem við vorum að vonast eftir að sjá. Enda mjög mikilvægt að enginn landshluti verði eftir þegar kemur að grænu orkuskiptunum. Orkuskiptin eru þá í einnig að hasla sér völl á nýjum sviðum, t.a.m. á hafi og með rafeldsneytisframleiðslu og ánægjulegt að sjóðurinn geti stutt við þau núna og vonandi áfram. “ segir Guðlaugur Þór.

Skipting fjármagns

Svona skiptist fjármagnið í fimm auglýsta flokka:

Flokkur Fjöldi Fjármagn (mkr)
Bætt orkunýting 9 122,6
Hleðslustöðvar fyrir samgöngur 70 169,0
Minnkun olíunotkunar í iðnaði 36 172,8
Orkuskipti í haftengdri starfsemi 12 188,9
Raf- og lífeldsneyti og metan 10 217,9
137 871,7

Dreifing um landið

Verkefnin dreifast nokkuð jafnt um landið sbr. neðangreind mynd sem sýnir dreifingu verkefna eftir landshlutum:

Við úthlutun styrkja Orkusjóðs voru umsóknir metnar út frá því hvort þau stuðli að raunverulegum orkuskiptum, minnki notkun jarðefnaeldsneytis með skilvirkum og hagkvæmum hætti og bæti nýtni í framleiðslugreinum.

Orkuskiptaverkefnin eru þess eðlis að þau teljast öll vera raunhæf, þau verða fljótlega komin í framkvæmd og skila strax árangri í samdrætti í losun. Áætlað er að olíusparnaður á ári verði á bilinu 1,5-3 milljónir lítra eða um 4.000-8.000 tonn af C02.

Nánari upplýsingar er að finna um styrkina á vef Orkusjóðs.

 

Deila: