Vildu ekki senda Tómas Þorvaldsson í niðurrif

Deila:

Nafni línubátsins Tómasar Þorvaldssonar hefur verið breytt og heitir hann nú Krummi. „Báturinn er að fara út í niðurrif en við vildum ekki senda Tómas Þorvaldsson í brotajárn svo við gáfum skipinu nýtt nafn, Krummi,“ segir Hrannar Jón Emilsson, útgerðarstjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík, í samtali við Kvótann. Báturinn hefur legið við bryggju nokkurn tíma og fer svo senn í sína síðustu sjóferð.

„Eins eins og staðan er núna erum við að fækka um eitt skip í flotanum, en  við sjáum svo bara til hvað hentar okkur. Hvort við endurnýjum línuskip eins og Vísir er að gera, eða breytum útgerðarmynstri og tökum inn ísfisktogara eða stærri frystitogara. Það er bara verið að meta hvað hentar. Eins og staðan er núna, er að skipunum sem verða að veiðum næsta vetur fækkar um eitt. Svo getur það breyst eins hratt og þetta kom upp. Ef eitthvert skip dettur upp í hendurnar á okkur, sem hentar rekstrinum sem við viljum vera í, þá gæti það alveg komið til. En það er ekkert á döfinni hjá okkur eins og staðan er núna.“

Hrannar Jón segir að skipin sem eftir eru eigi að ráða við að taka aflaheimildir félagsins. „Ég er ekkert smeykur við að við náum ekki aflanum. Línuskipin eru aðallega að veiða þorsk og gengur það vel. Ef línuflotinn myndi ekki duga, myndu þeir hoppa hæð sína í loft upp strákarnir á frystitogurunum, ef þeir fengju að veiða þorskinn frá línuskipunum.“

Krummarnir gerðu sig heimakomna á Krumma fyrr á árinu. Kannski hafa þeir vitað fyrr en aðrir hvað til stóð. Ljósmynd Þórunn Halldóra Ólafsdóttir.

Krummarnir gerðu sig heimakomna á Krumma fyrr á árinu. Kannski hafa þeir vitað fyrr en aðrir hvað til stóð. Ljósmynd Þórunn Halldóra Ólafsdóttir.

Þegar Krummi er allur verða skip Þorbjarnar frystitogararnir Hrafn Sveinbjarnarson og Gnúpur og línuskipin Valdimar, Sturla og Hrafn.

Krummi var smíðaður 1966 sem síldveiðiskip og hét upphaflega Héðinn og var gerður út frá Húsavík.  Hann var svo keyptur þaðan til Grindavíkur og fékk þá nafnið Hrafn GK og var gerður út sem uppsjávarskip. Svo fékk hann nafnið Geirfugl 2001 og síðan Tómas Þorvaldsson nokkrum árum seinna og var hann gerður út sem línuskip.

Tómas Þorvaldsson var stofnandi Þorbjarnar og eigandi til langs tíma en hann er látinn fyrir nokkrum árum.

Deila: