Vel heppnaður fjárfestadagur Marel í Hollandi

Deila:

Yfir 100 fjárfestar og markaðsaðilar sóttu fjárfestadag Marel (e. Capital Markets Day) sem haldinn var í byrjun maí. Fundurinn var haldinn í nýsköpunar- og framleiðslustarfsstöð félagsins í Boxmeer í Hollandi, en þetta er í annað sinn sem Marel heldur slíkan fjárfestadag.

Hlaða niður kynningu

Markmiðið með deginum var að gefa fjárfestum tækifæri til að öðlast dýpri skilning á starfsemi félagsins og vaxtarstefnu til framtíðar. Nýsköpun hefur verið kjarninn í stefnu Marels frá upphafi. Fyrir 40 árum varð Marel vogin kveikjan að gagnabyltingu í íslenskum sjávarútvegi.

Síðan þá hefur félagið byggt á gögnum og nýsköpun til að auka verðmæti í matvælaiðnaði fyrir kjúkling, kjöt og fisk, m.a. með því að hámarka nýtingu og afköst, og eins tryggja rekjanleika í hverju skrefi og auka matvælaöryggi.

Fjölbreyttur hópur stjórnenda og starfsmanna héldu erindi á fjárfestadeginum

Árni Oddur Þórðarson forstjóri, Linda Jónsdóttir fjármálastjóri og Árni Sigurðsson framkvæmdarstjóri stefnumótunar byrjuðu dagskrána með kynningum um vöxt félagsins frá sprotafyrirtæki til leiðtoga á sínu sviði á heimsvísu, viðskiptamódel og vaxtarstefnu, markaðshorfur og lykiltölur úr rekstri.

Árið 2018 skilaði félagið mettekjum upp á 153 milljarða króna (1.198 milljónir evra). Þetta samsvarar 15% tekjuvexti á milli ára, en þar af telst 12,5% til innri vaxtar. Viðskiptavinahópur Marel er fjölbreyttur eftir stærð og landsvæðum og samsetning tekna var góð, en um 35% af tekjum kom frá þjónustu og varahlutum.

Ulrika Lindberg framkvæmdarstjóri þjónustu, David Wilson framkvæmdastjóri Marel Meat og Roger Claessen forstöðumaður nýsköpunar í kjúklingaiðnaði fjölluðu um sölu, þjónustu og framleiðslusvið félagsins, stöðu og markaðshorfur í kjöt-, kjúklinga- og fiskiðnaði og öflugt framlag Marel til nýsköpunar og vöruþróunar.

Félagið fjárfestir á ári hverju 6% af tekjum sínum í nýsköpun og hefur á síðustu þremur árum kynnt til sögunnar 50 nýjar lausnir sem auka hagkvæmni og afköst matvælaframleiðslu á heimsvísu. Árið 2018 nam fjárfesting Marel í nýsköpun og vöruþróun 9,4 milljörðum króna (74 milljónum evra).

Einstök upplifun af vöruþróun í sýndarveruleika, hátæknilausnum og framleiðslu

Til viðbótar við hefðbundna fyrirlestra var gestum boðið að kynnast starfseminni í Boxmeer betur. Boxmeer er ein af þrettán framleiðslustarfsstöðvum Marel og þar er unnið náið með vöruþróunardeild að hátæknilausnum fyrir viðskiptavini í kjúklinga- og kjötiðnaði um heim allann.

Gestum var boðið í heimsókn í framleiðsluna þar sem sérfræðingar brugðu sér í hlutverk leiðsögumanna og fræddu gesti um stöðugar umbætur í framleiðsluferli Marel og fjárfestingu í sjálfvirkni, starfsfólki og innviðum.

Í Boxmeer er einnig staðsettur einn af fjórum sýningarsölum Marel en þar fengu gestir raunupplifun af nýjasta tækjabúnaði Marel á sviði frekari vinnslu. Á hverju ári sækja þúsundir viðskiptavina sýningarsalina heim til þess að skoða og prófa nýjasta tækjabúnað og hugbúnaðarlausnir félagsins.

Auk þess var boðið upp á ferðalag í sýndarveruleika í nýlegar vinnslur, meðal annars eina fullkomnustu laxavinnslu í heimi sem er staðsett í norður Noregi og er fullbúin Marel tækjabúnaði. Marel hefur í auknum mæli þróað og prófað hátæknibúnað sinn í sýndarveruleika áður en hann er framleiddur og afhentur til viðskiptavina. Með þessu má hraða vöruþróunarferlinu, minnka sóun og kynna vörur á markað með skjótari hætti.

Heimsókn í Esbro Premium Poultry

Degi seinna, 3. maí, gafst fjárfestum og gestum tækifæri að sækja heim viðskiptavin Marel til margra ára og upplifa hátæknilausnir í kjúklingaiðnaði. Árið 2012 opnaði Esbro Premium Poultry nýja kjúklingavinnslu búna hátæknilausnum og hugbúnaði frá Marel sem nær yfir alla þætti framleiðslunnar.

Sérfræðingar Marel veittu gestum leiðsögn um vinnsluna þar sem Marel lausnir leika lykilhlutverk í að auka sjálfvirkni og framleiðni og þar með stuðlað að bættri nýtingu, matvælaöryggi og vörugæðum.

 

Deila: