Icelandic Group selur Seachill
Icelandic Group hefur undirritað samning um sölu á Seachill, dótturfélagi sínu í Bretlandi. Kaupandi er breska matvælafyrirtækið Hilton Food Group. Heildarvirði Seachill í viðskiptunum nemur um 12 milljörðum króna, eða 84 milljónum sterlingspunda. Ráðgert er að félagið verði afhent nýjum eiganda þann 7. nóvember næstkomandi samkvæmt rétt á ruv.is
Í tilkynningu frá Icelandic Group kemur fram að Seachill hafi verið auglýst í apríl síðastliðnum og mikill áhugi verið á fyrirtækinu. Niðurstaðan hafi verið að ganga til samninga við Hilton. Umsjón með söluferlinu og ráðgjöf til seljanda var í höndum Oghma Partners og Íslandsbanka. Logos veitti seljanda lögfræðiráðgjöf í tengslum við viðskiptin.
Herdís Dröfn Fjeldsted stjórnarformaður Icelandic Group, og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, segir í tilkynningunni að stórum áfanga sé náð í þeirri vegferð sem hófst árið 2015 þegar stefnan var tekin að selja Icelandic Group í einingum frekar en í heilu lagi. Alls hafi einingarnar verið seldar fyrir um 20 milljarða króna. Það skili sér beint til eigendanna sem eru að meirihluta íslenskir lífeyrissjóðir.