Leka vart við dælingu úr veltitanki

Deila:

Vatn eða sjó hefur komist í brennsluolíu á Bjarna Sæmundssyni. Síðan þá hefur verið unnið að því að finna út hvaðan það kemur. Ljóst er að vatnið eða sjórinn er frá vatnslögnum eða tönkum innan skipsins.

Sjó var dælt úr veltitanki skipsins á miðvikudag til að kanna hvort leki væri úr tankinum. Náið eftirlit var haft með sjódælingunni og kom þá í ljós minniháttar olíubrák. Dælingin var stöðvuð strax og lekans varð vart. Dælubíll, sem var á staðnum, hóf þegar í stað að dæla olíubrákinni úr sjónum og í kjölfarið var hreinsiefni sprautað yfir.

Reykjavíkurhöfn var strax tilkynnt um lekann. Eftirlitsmenn hafnarinnar komu fljótt á vettvang og töldu þeir að magn olíu sem hefði farið í sjóinn hefði ekki verið það mikið að frekari aðgerða væri þörf til að varna olíumengun. Svo virðist sem einhver olíubrák hafi komist undir bryggjuna og í dekkin sem eru milli skips og bryggju. Þegar flæðir að hefur olía smitast út í sjóinn og því var olíubrák sýnileg í sjónum í morgun. Áhöfn Bjarna Sæmundssonar og starfsmenn Reykjavíkurhafnar hafa unnið að því að hreinsa olíuna af dekkjunum. Af þessu hefur ekki hlotist neitt tjón enda brugðist hratt og rétt við, en olía í sjó er mjög sýnileg og getur breiðst töluvert út þó svo að magn sé lítið.

Enn hefur ekki tekist finna hvernig vatn eða sjór hefur komist í brennsluolíu skipsins sem hefur tafið rækju- og síldarleiðangur, sem átti að hefjast sl. miðvikudag.

Deila: