Kröfu um ógildingu rekstrarleyfis til laxeldis í Reyðarfirði hafnað
Fallið hefur dómur í Héraðsdómi Reykjaness þar sem Matvælastofnun og Laxar fiskeldi ehf. voru sýknuð af kröfu málsóknarfélagsins Náttúruvernd 2 um að ógilda rekstrarleyfi til reksturs sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði. Frá þessu er sagt á heimasíðu Matvælastofnunar.
Í niðurstöðu dómsins segir að Alþingi hafi sett sérstök lög um fiskeldi og að þau brjóti ekki í bága við náttúruverndarlög. Í dómnum er markmiðum laga um fiskeldi lýst og þeim takmörkunum sem fiskeldi sé háð. Fyrir liggi að löggjafinn hafi gert ráð fyrir þeirri hættu sem geti skapast af fiskeldi, en um leið hafi verið settar reglur til að ekki verði röskun á vistkerfi villtra fiskstofna og sjálfbærri nýtingu þeirra verði ekki stefnt í hættu. Dómurinn taldi ekki á valdi dómstóla að kveða á um að laxeldi í sjókvíum væri almennt ekki heimilt.
Þá féllst dómurinn ekki á að fella bæri rekstrarleyfið úr gildi vegna þess að tilgreiningar til laxstofns hafi vantað í leyfið eða að starfsemi hafi ekki hafist innan tilskilins tíma. Jafnframt var sjónarmiðum um að rannsóknaregla og andmælaréttur stjórnsýslulaga hafi verið brotin hafnað, sem og að vanhæfissjónarmið stjórnsýslulaganna hafi valdið því að ógilda bæri rekstrarleyfið.
|