Hárrétt viðbrögð starfsmanna

Deila:

,,Viðbrögð starfsmanna voru hárrétt, að mínu mati, enda er aldrei of varlega farið þegar eldur er annars vegar. Slökkviliðsstjórinn mat það þannig á leiðinni að rétt væri að kalla einnig út slökkvilið frá Þórshöfn og Egilsstöðum en það kom fljótlega í ljós að það var sem betur fer ekki þörf fyrir þann liðsstyrk.“

Þetta segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði í samtali við heimasíðu HB Granda í gær, en þar kom upp eldur í reykröri um morguninn.

,,Það, sem gerðist, var að við létum opna reykrör, sem liggur frá þurrkara, til að geta þrifið það. Við það hljóp neisti frá slípirokki í mjölleifar sem voru í rörinu og staðbundinn eldur kom upp. Okkar fyrstu viðbrögð voru að útiloka að súrefni kæmist að eldinum og síðan var hann slökktur með vatni,“ segir Sigmundur. Í máli hans kemur fram að dagana á undan hafi orðið vart við ákveða tregðu í loftflæði um reykrörið og því hafi tækifærið verið notað til að opna rörið um leið og verksmiðjan var þrifin.

,,Það var lokið við að vinna kolmunna í verksmiðjunni í gærmorgun. Við þrífum verksmiðjuna hátt og lágt þegar hlé verður á vinnslunni og það voru slík þrif í gangi þegar eldurinn kom upp í mjög takmörkuðu rými. Það gerðist upp úr klukkan átta í morgun og slökkviliðið var farið héðan kl. 10.30,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson.
 

 

Deila: